Spurt og svarað

18. desember 2011

Konur sem rifna mjög illa við fæðingu

Góðan dag!

Ég velti því fyrir mér eftir að hafa horft á sænskan rannsóknaþátt hversu algengt það sé á Íslandi að konur rifni alvarlega þegar þær fæða barn um leggöng? Er ljósmæðrum á Íslandi uppálagt að halda við spöng meðan kollurinn kemur út? Eru til einhverjar íslenskar rannsóknir á þessu? Þegar ég var í mæðravernd í fyrra var ekkert talað um það að rifna illa, eða hvaða afleiðingar það gæti haft í för með sér, það var ekki fyrr en ég sá þennan þátt að ég heyrði fjallað um þetta. Ef ég verð þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast annað barn stefni ég á að fæða það um leggöng - en ég ætla líka að passa mig á að biðja um ljósmóður sem getur stutt við spöngina og kollinn á barninu til að minnka líkur á því að rifna. En mér leikur samt forvitni á að vita hvert „normið“ er hjá íslenskum ljósmæðrum.

Fyrir ykkur sem viljið sjá þáttinn sem ég er að vísa í, þá heitir hann „Spricka hela vägen“ (ótextað).


Kærar þakkir og bestu kveðjur, Keisaramóðir.


Sæl og blessuð!

Það er gaman að heyra að þú hafir séð þennan þátt í sænska sjónvarpinu því það er einmitt í gangi gæðaverkefni á Landspítalanum, bæði á fæðingardeildinni og í Hreiðrinu sem snýst akkúrat um þetta. Finnski fæðingarlæknirinn Jouko Pirhonen sem rætt við við í þættinum var hér á landi í lok október og hélt námskeið fyrir ljósmæður og lækna sem taka á móti börnum á Landspítalanum. Í framhaldi af því var hér norsk ljósmóðir í 4 vikur til að þjálfa ljósmæður og lækna í handtökum sem miða að því að draga úr alvarlegum spangarrifum. Tíðni slíkra spangarrifa hér á Landspítala var um 6% árið 2010 og hefur verið svipuð í nokkur ár. Fyrir nokkrum árum var gert átak til að lækka tíðni alvarlegra spangarrifa í Noregi og tókst það mjög vel.  Þar voru ný handtök við barnsfæðingar innleidd á 4 sjúkrahúsum og náðist sá góði árangur að lækka tíðni 3. og 4. spangargráðu rifa úr 4-5% í 1-2%. Í raun er ekki um ný handtök að ræða heldur hefðbundin handtök sem notuð voru á árum áður á Norðurlöndunum en hafa nær eingöngu haldist í notkun í Finnlandi.
Nú hafa ljósmæður og læknar á Landspítala fengið þjálfun í þessum gömlu, góðu handtökum í þeirri von að okkur takist jafn vel og Norðmönnum að fækka alvarlegum spangarrifum. Þessi vinnubrögð krefjast góðrar samvinnu við fæðandi konur og nokkur atriði þarf að hafa í huga.

  • Til að hægt sé að beita þessum handtökum að fullu, þurfa konur að fæða í stellingu sem gefur færi á að sá sem tekur á móti sjái vel spöngina og geti stutt vel við hana. Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að kona sé á hreyfingu og/eða rembist í mismunandi stellingum s.s. sitjandi, standandi eða ofan í baði.
  • Ekki er hægt að beita handtökunum að fullu þegar konur fæða standandi, sitjandi á fæðingarstól eða í baði en að sjálfsögðu hafa konur áfram val um að fæða í þeirri stellingu sem þær kjósa.
  • Góð samskipti milli þess sem tekur á móti barninu og konunnar sem er að fæða eru mikilvæg því konan þarf að fá góðar leiðbeiningar þegar kollur barnsins er að fæðast, því mikilvægt er að kollurinn fæðist hægt og rólega.
  • Spangarklipping verður eftir sem áður gerð í völdum tilvikum og er ekki gert ráð fyrir breyttu vinnulagi hvað það varðar.
Í þættinum sem þú nefnir eru handtökin sem við erum að innleiða á Landspítalanum sýnd og svo eru viðtöl við ýmsa, m.a. konur sem hafa fengið alvarlegar spangarrifur. Það er hægt að kalla fram sænskan texta með því að smella á T.

Allar nánari upplýsingar um gæðaverkefnið er að finna í upplýsingabréfi til kvenna sem ætla að fæða á Landspítala á vefsíðu Landspítala.

Vona að þetta svari spurningunum þínum.


Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
18. desember 2011.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.