Spurt og svarað

07. desember 2004

Kynfæravörtur

Hæ!

Ég var að velta því fyrir mér hvort að kona sem er með kynfæravörtur (mjög lítið en er samt með smá) geti fætt eðlilega eða hvort það þurfi að taka barnið með keisara?

Með von um svör.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Kynfæravörtur orsakast af veirusýkingu og er veiran sem vörtunum veldur kölluð Human Papilloma Virus eða HPV veiran. Þegar kynfæravörtur hafa myndast geta þær verið mjög lengi að hverfa. Vörturnar eru oft til staðar í marga mánuði og jafnvel í mörg ár. Algengt er að kynfæravörtur vaxi hraðar á meðgöngutímanum. Vörtur sem varla hafa sést eða verið rétt sjáanlegar, geta þá stækkað mikið á skömmum tíma. Líklega er þetta vegna hormónabreytinga og tímabundinna breytinga sem verða á ónæmiskerfinu á meðgöngutímanum. Ef mikill vöxtur verður á vörtunum á meðgöngunni þarf stundum að meðhöndla þær fyrir fæðingu. Konur sem smitast hafa af HPV kynfæravörtum geta yfirleitt fætt um fæðingarveg. HPV veiran hefur ekki áhrif á frjósemi eða fóstur.
Þú skalt ræða í næstu mæðraskoðun við þína ljósmóður og lækni og fá álit þeirra á því hvort þú þurfir að láta meðhöndla vörturnar fyrir fæðinguna.

Gangi þér vel.

Yfirfarið í júlí 2020

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.