Spurt og svarað

18. apríl 2008

Langur aðdragandi

Ég er farin að huga að fæðingu númer 2.  Sú fyrri átti sér stað í Hreiðrinu og gekk að mér skilst eins og í sögu eftir tæplega 40 vikna meðgöngu. Aðdragandinn var hins vegar hreint helvíti. Margir dagar af samdráttarverkjum og rúmlega 24 tíma útvíkkunartímabil.  Ég ældi öllu sem ég átti nokkrum tímum fyrir sjálfa fæðinguna og síðustu tvo tímana áður en ég mátti byrja að rembast var ég svo örmagna að ég bara lá og grét, kom engu niður og gat ekki slakað á milli hríða.  Ekki svo skrýtið þar sem ég hafði ekkert sofið í marga daga vegna verkja og beinlínis engin orka eftir.  Eftir fæðinguna var ég komin í hálfgerðan vítahring og náði mér ekki niður, gat ekki sofnað og gekk illa að koma niður mat í marga daga á eftir.  Það tók mig langan tíma að vinna upp orku á ný og mér gekk illa að sinna nýfæddu barninu þar sem ég var sí dottandi og máttlaus. Mér finnst eins og hér sé ýmislegt sem megi forðast í næstu fæðingu, þó ég sé ekki alveg viss um hvernig. En nú er eldra barn á heimilinu sem þarfnast mikillar athygli svo ekki sé talað um barnið á leiðinni.

Remedíur?  Virka þær til að herða sótt?  (sendi inn fyrirspurn fyrir nokkrum vikum en hef ekki séð nein svör frá ykkur).

Má biðja um sykurlausn í æð ef maður er uppgefinn eftir uppköst? Er í undirþyngd.

Má biðja um að hreyft sé við belgjum, eftir 37 vikna meðgöngu ef maður er orðinn vansvefta og sér fram á að eiga ekkert eftir fyrir fæðinguna?  Ég veit að svarið er nei fram að 40 viku en er það ekki það besta fyrir alla ef allt stefnir í óefni? 

Er boðið upp á einhverja úrlausn fyrir vansvefta verkjakonur? Innlögn?

Er þreyta næg ástæða fyrir lengri sængurlegu?

Þessar spurningar hljóma kannski einkennilega, en þegar maður les svör eins og „vertu bara ákveðin“, þá er það bara þannig að ef maður veit ekki hvað má, eða hvað ekki, þá er voðalega erfitt að vera ákveðin og „heimta“ hitt eða þetta.

Kærar þakkir fyrir öll svörin þið eruð ómetanlegar.


Sæl

Leiðinlegt að heyra hvað þú hefur upplifað erfiðan tíma í kringum síðustu fæðingu. Þannig er það nú að oftast tekur þetta allt saman mun skemmri tíma í fæðingu númer 2.

Varðandi remedíur þá höfum við ljósmæður ekki sérþekkingu í þeim efnum svo ég bendi þér á að tala við hómópata varðandi þær. Það er fín grein um remedíur á vef Organon - fagfélags hómópata.

Það er sjálfsagt að þú setjist niður og semjir óskalista varðandi þessa fæðingu sem miðast við þá síðustu. Að sjálfsögðu er erfitt að vera með margra daga samdrætti og svefnleysi og fara þannig í fæðingu. Ég myndi ráðleggja þér ef í það sama stefndi nú að vera í mjög góðu sambandi við þína ljósmóður í mæðravernd og ræða þessi mál við hana. Einstaka sinnum þarf að leggja konur inn í hvíldarinnlögn ef þess er þörf. Einnig eru notuð væg svefnlyf í lok meðgöngu ef þess er þörf. Varðandi sykurlausn í æð í fæðingu þá auðvitað ætti það við ef þú kemur alls engu niður og ert orðin máttfarin. Veit ekki hvort þú hefur prófað nálarstungur í síðasta ferli en myndi ráðleggja það nú bæði í fæðingu og sængurlegu, þær geta hjálpað til við ógleði, verki og andlega spennu. Varðandi sængurlegu þarftu að ræða það við komu á deild, það er svo misjafnt hvernig ástandið er og ekkert víst að þú myndir hvílast betur ef er t.d. brjálað að gera.

Ég verð nú samt hrósa þér fyrir að vera byrjuð á undirbúningi fyrir næstu fæðingu með þessum spurningum en mundu að jákvætt hugarfar skiptir höfuðmáli þegar þú ferð í fæðinguna, ekki sjá fyrir þér eins og allt verði eins og síðast, þetta er ný fæðing, reyndu að sjá hana fyrir þér sem styrkjandi og eflandi lífsreynslu.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
18. apríl 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.