Spurt og svarað

08. nóvember 2005

Langur naflastrengur og blóðmissir í fæðingu

Sælar og takk fyrir upplýsandi vef!
Ég átti barn núna í sumar og eitt hefur verið að vefjast fyrir mér. Maðurinn minn fékk ekki að klippa á naflastrenginn. Það var svo mikið að gerast á þessum tíma að ég gleymdi að spyrja af hverju. Eitthvað voru þau að tala um að naflastrengurinn væri langur. Gæti það tengst því eitthvað? Eins finnst mér í minningunni eins og naflastrengurinn hafi verið vafinn utan um líkama barnsins, er það eðlilegt?
Einnig missti ég tvo lítra af blóði eftir að ég hafði fætt og töluðu þau, að ég held, um að það hafi verið vegna þess að það hafi eitthvað rifnað þar sem fylgjan var föst við legið. Getur verið að það sé réttur skilningur hjá mér? Hefur það einhver áhrif á möguleika mína á þungun seinna meir? Gætu verið ör sem hafa e-r áhrif á möguleika eggs að festa sig?

Get ég nálgast upplýsingar um fæðinguna mína á fæðingardeildinni og myndu
þessar upplýsingar þá liggja fyrir þar?
Með fyrirfram þökk

....................................................................................................................

Sæl og þakka þér fyrir fyrirspurnina!

Í hita leiksins er oft erfitt að muna eftir að spyrja eftir öllu sem manni dettur í hug og maður er að upplifa auk þess sem þú hefur sennilega þurft að fara inn á skurðstofu eftir fæðinguna og því mikið að taka inn og melta á sama tíma.  Síðan þegar tíminn líður vakna margar spurningar og hugsanir varðandi þessa upplifun.  Sem betur fer er mannsheilinn þannig gerður að hann tekur bara inn ákveðið magn af upplýsingum sem maður getur melt á ákveðnum tíma og geymir hitt til betri tíma.

Langur naflastrengur er ekki ástæðan fyrir því að pabbinn fékk ekki að klippa á naflastrenginn í sjálfu sér.  Hins vegar gæti verið eins og þú segir að naflastrengurinn hafi verið vafinn utan um barnið og hert einhvers staðar að og ljósmóðurinni þinni eða lækninum þótt ástæða til að skilja strax á milli.  Líklegasta ástæðan er sú að barnið hafi verið eitthvað slappt og þurft einhverja örvun til þess að byrja með. 
Ástæðan fyrir blóðmissinum er líklega sú að þegar fylgjan losnaði frá leginu hafi hún ekki losnað í heilu lagi og fylgjubiti orðið eftir fastur við legið.
Þetta ætti ekki að hafa áhrif á möguleika þína til þungunar en eitthvað sem ljósmóðirin þín þarf að vita.  Þegar kona hefur blætt eftir fæðinu eru aðeins auknar líkur á að hún geti blætt eftir næstu fæðingu og eru þá allar varúðarráðstafanir viðhafðar.  Konan fær strax sterk samdráttarlyf, það er sett upp nál til að hafa greiðan aðgang í æð og allt gert til að koma í veg fyrir að hún verði aftur fyrir því að missa mikið blóð. 
Það geta allar konur nálgast skýrslurnar sínar 3 mánuðum eftir fæðingu.  Þær hafa samband við skjalasafn Vesturhlíðar í síma  543-8380 eða 543-8381 og gefa upp nafn og kennitölu.  Síðan er tekið ljósrit af skýrslunni og konunni afhent gegn framvísun skilríkja.  Ljósritið kostar held ég um 600kr.  Vonandi svarar þetta spurningu þinni,

kær kveðja
Guðrún Sigríður Ólafsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
7. nóvember 2005

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.