Spurt og svarað

08. ágúst 2006

Leg hnoðað eftir fæðingu

Sælar og takk fyrir góð svör á siðunni ykkar.
Þegar ég átti dóttur mína fyrir rúmu ári síðan dróst legið hjá mér ekki saman eftir fæðingu og þurftu læknar að pumpa það í ca. 1 1/2 klst áður en það fór að virka sjálft.

Þetta er mitt fyrsta barn og gekk fæðingin sjálf eins og í lygasögu, fyrir utan þetta. Nú langar mig til að spyrja hvort að það sé líklegt að þetta gerist aftur, þar sem okkur hjónum er farið að langa í annað kríli. Þetta er nefnilega eitthvað sem ég er smá hrædd við, þar sem þetta voru ólýsanlegar kvalir sem fylgdu því þegar legið var pumpað saman.  Vonandi getið þið sagt mér eitthvað um þetta, þar sem mér fannst fæðingin
sjálf ótrúlega skemmtileg upplifun fyrir utan þetta atriði.

Kær kveðja,
VilborgSæl Vilborg og þakka þér kærlega fyrir fyrirspurnina. 

Ég skil að þú sért hrædd við þetta og veit að þetta veldur konunni ótrúlegum kvölum.
Því miður verð ég að segja þér að það er ákveðin áhætta á að þetta gerist aftur.
EN!!  Þegar vitað er að konan hefur blætt áður eftir fæðingu eru viðhafðar ákveðnar varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir að það gerist aftur.  Það er sett upp nál hjá konunni, teknar blóðprufur, hún fær lyf sem draga saman legið eftir fæðinguna og ýmislegt sem við reynum að gera til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. 
Þetta gerist ekki aftur hjá öllum konum en eins og ég segi þá er þetta ákveðinn áhættuþáttur.

Ég vona að þið sjáið ykkur fært að reyna aftur og getið notið þess að upplifa aftur þetta stórkostlega kraftaverk sem fæðingin er.  Ef þetta liggur þungt á þér þá vil ég hvetja þig til þess að hafa samband við sérfræðinginn sem sinnti þér í fæðingunni og fá viðtal við hann og jafnvel ljósmóðurina sem sinnti þér.  Þú getur einnig haft samband við Ljáðu mér eyra og fengið tíma hjá þeim. 

Vonandi hjálpar þetta þér eitthvað og gangi þér vel!

Kær kveðja
Guðrún Sigríður Ólafsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
08. ágúst 2006

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.