Spurt og svarað

08. nóvember 2005

Legvatnið fer en hríðar byrja ekki strax

Sælar verið þið,

Ég átti mitt fyrsta barn núna í sumar. Fæðingin gekk mjög vel og var í alla staði mjög ánægjuleg lífsreynsla (sem og tíminn með barninu hingað til). Eftir fæðinguna hafa samt sem áður vaknað nokkrar spurningar sem ég vona að þið getið svarað.
Annars vegar er það varðandi rútínur ljósmæðra í fæðingu. Fæðingin hjá mér hófst á því að legvatnið fór án nokkurra fyrirvaraverkja eða hríðarverkja.  Nokkrum klukkustundum seinna byrjuðu verkir sem smám saman urðu sterkari þar til kom að fæðingu. Á þessu tímabili fór ég tvisvar í mónitor upp á deild, í fyrra skiptið áður en verkir voru byrjaðir fyrir alvöru og í seinna skiptið 5 tímum fyrir fæðingu barnsins. Útvíkkun var ekki athuguð vegna sýkingarhættu og í bæði skiptin var ég send heim. Svo mín spurning er, hversu stutt þarf að vera milli hríða til að útvíkkun sé athuguð hjá konum sem hafa misst vatnið?

Hin spurningin sem ég hef varðar það hvort það séu meiri líkur á því að næsta fæðing hefjist á sama hátt. Þ.e. eru auknar líkur á að næsta fæðing byrji með missi legvatns án nokkurra verkja áður, fyrst þessi fæðing byrjaði þannig?

Með fyrirfram þökk.

.................................................................................................................

Sæl og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Eins og þú segir sjálf þá er konan ekki skoðuð eftir að staðfest er að legvatn sé farið nema hún sé byrjuð með hríðar.  Konan kemur í sírita upp á deild til að hægt sé að athuga með hjartslátt barnsins, lit legvatns og hvort móðirin sé komin með hita auk þess sem hún ætti að fá með sér upplýsingabækling ef hann er til á deildinni en annars munnlegar upplýsingar um hvaða atriðum hún þarf sjálf að fylgjast með heima.  Á fæðingargangi LSH er sú regla viðhöfð að skoða konuna ekki nema skoðunin hafi einhvern tilgang.  Ef konan er byrjuð með einhverja samdrætti sem hún finnur lítið fyrir og vill gjarnan fara heim eftir að búið er að staðfesta að allt sé í lagi þá er hún ekki skoðuð. 
Yfirleitt er konan ekki skoðuð fyrr en það eru innan við 5 mínútur á milli hríða hjá henni og verkir eins og slæmir tíðaverkir í framanverðum kvið og baki fylgja með.  En eins og áður sagði þarf skoðunin að hafa einhvern tilgang t. d. ef konan óskar eftir ákveðinni verkjameðferð eða vill sjálf beinlínis vera skoðuð til að vita hvort eitthvað sé að gerast.  En eins og við töluðum um þá er reynt að halda skoðunum í lágmarki og metið í hverju tilfelli fyrir sig hvort og/eða hvenær á að skoða konuna. 

Talað er um fæðing barns sem er fullmeðgengið byrji í 6-19% tilvika á því að vatnið fari áður en hríðir byrja.  Um 70% þessara kvenna byrja í fæðingu innan 24 klukkustunda og 90% innan 48 klukkustunda.  Hérlendis reynir yfirleitt ekki á lengri tíma þar sem á Íslandi er reglan yfirleitt sú að konunni er gefið tækifæri í sólarhring á að byrja sjálf í fæðingu áður en farið er að grípa inní.
Ég hef ekki tölur um hverjar líkurnar eru á að næsta fæðing byrji á sama hátt en talað er um að það séu aðeins auknar líkur á að slíkt geti gerst aftur hjá konu. 
Hafa ber þó í huga að engin fæðing er sambærileg við aðra, hvorki hjá sömu konu eða milli kvenna.

Kær kveðja,
 Guðrún Sigríður Ólafsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
7. nóvember 2005

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.