Spurt og svarað

20. október 2007

Losa við belgnum fyrir 40 vikur

Vil byrja á að þakka fyrir frábæran vef, hefur gefið mér svör við þeim að virðast endalausum spurningum ég hef haft :)

Mig langar að forvitnast um losun belgja. Ég veit þó eitthvað um það eftir að hafa lesið af vefnum en langar að vita eftirfarandi:

  1. Má losa við belgnum fyrir 40 vikur? Þ.e. milli 38.-40. viku ekki af neinni sérstakri ástæðu bara því mann langi til þess? Hef lesið hér að það hafi ekkert slæmt í för með sér.
  2. Ef 1 má, en ef ljósmóðirin vill ekki gera það eða er á móti því? Finnst sumar vera orðnar svo vanafastar og vilji ekkert bregða útaf svona sé þetta bara og hananú. Er þá hægt að tala við hana eða biðja hana um að benda manni á einhvern annan?
  3. Hvernig er losað um belginn?

Bestu kveðjur og þakkir, bumbulína :)


Sæl og blessuð!

Kannski er best að spyrja sig, af hverju þarf að losa um belgi? Fæðingin hefst þegar allir þættir eru tilbúnir og við vitum ekki hvenær það er. Konur eru oft orðnar óþreyjufullar að fara að fæða barnið í lok meðgöngu. Yfirleitt er ekki losað um belgi fyrir 40 vikur af áðurnefndum ástæðum og að vera ekki að þreifa of oft vegna aukinnar sýkingahættu. Hins vegar ef konur eru komnar 41-42 vikur er allt í lagi  að erta leghálsinn sérstaklega ef hann er orðinn hagstæður.  Ein ástæða þess að vera ekki að losa um belgi hjá konum er að þær fá oft leiðinda túrverki sem eru ekki að gera nægjanlega mikið en eru samt að valda konum verkjum. Þær verða oft enn óþolinmóðari og hafa þá ákveðnar væntingar um að nú hljóti fæðing að fara að hefjast, halda fyrir þeim vöku og gera þær enn þreyttari er að fæðingunni kemur. Þess vegna er best að gera ráð fyrir að fæðing hefjist ekki fyrr en 42 vikur og 2-3 vikur fyrir þann tíma er það bara bónus!

Ef ljósmóðir þín í mæðraverndinni vill ekki losa um belgina er þetta ástæðan og efast ég um að hún sé þá að benda þér á einhvern annan þar sem ljósmæður eru ekki svo mikið að gera þetta.
Það sem gert er þegar losað er um belgi er að gerð er leggangaskoðun og fundið upp á leghálsinn og farið með 1-2 fingur inn í hann og reynt að ýta belgjunum frá leghálsinum og getur þetta verið óþægilegt fyrir konur.

Vonandi hjálpar þér þetta eitthvað.

Kveðja og gangi þér vel,

Steina Þórey Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
20. október 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.