Spurt og svarað

23. febrúar 2009

Má pabbinn taka á móti barninu?

Sælar!

Mig langar að eiga í baði á Landspítalanum og mig langar að pabbinn taki á móti barninu ofan í baðinu, er það leyft?

Hjördís.


Sæl!

Ég var að velta fyrir mér hvort það væri almennt leyfilegt að pabbinn tæki á móti barninu í fæðingu, þá með hjálp ljósmóður ef þess er þörf? Þarf þá að biðja um það sérstaklega fyrirfram eða er nóg að biðja um það á staðnum?

Kveðja, Þóra.Kæra verðandi mæður,  Hjördís og Þóra.

Takk fyrir spurningarnar frá ykkur báðum, sem mér finnst skemmtilegar, en ég held að hægt sé að svara þeim báðum í sömu andrá. Þótt svarið sé vissulega snúið og alls ekki einhlítt. Líklega eru svörin jafn mörg og ljósmæður eru margar. Aðstæður í sérhverri fæðingu eru einstakar og ómögulegt að segja fyrir um hvernig fæðingin þróast. Í mínum huga er hlutverk föðurins/maka fyrst og fremst að styðja móðurina í fæðingunni, vera til staðar fyrir hana. Og auðvitað njóta augnabliksins. Það er mögnuð upplifun þegar barn fæðist og hver það er nákvæmlega sem færir barnið í fang móður sinnar, tekur á móti því, skiptir ekki öllu máli. Ég held að það gæti verið „truflandi“ fyrir sjálfa fæðinguna  ef allt of fyrirfram mótaðar hugmyndir eru um það hvernig  sjálf „móttakan“ á að fara fram. Það þýðir þó alls ekki það, að hugsanlega geti faðirinn verið meiri þátttakandi í því að taka á móti barni sínu. Eðli vatnsfæðinga er t.d. nánast alltaf þær að barnið í raun syndir í heiminn og því auðvelt fyrir foreldra að taka þátt í því að flytja það upp  á vatnsyfirborðið. Í eðlilegum fæðingum  gildir í raun það sama. Ef allt er eðlilegt og foreldrum líður þannig, finnst mér það persónulega vel koma til greina að faðirinn hjálpi til við móttöku barnsins, rétt eins og móðirin sjálf getur tekið á móti barni sínu.

Mikilvægast finnst mér hins vegar að móðirin fái að stjórna þessu og að hennar óskir séu í fyrirrúmi. Reynslan hefur kennt mér að margt sem foreldrar hafa óskað sér fyrir fæðingu, breytist í sjálfri fæðingunni. Þegar barnið kemur í heiminn hefur móðirin kannski mesta þörf fyrir að maki hennar sé algjörlega hjá henni, við höfðagaflinn. Haldi í hönd hennar og segi henni með augunum hvað hún standi sig vel. 

En ég ráðlegg ykkur eindregið að ræða þetta við þá ljósmóður sem er með ykkur í fæðingunni og ég er viss um að auðvelt verður að verða við óskum ykkar.

Með bestu kveðjum,

Steinunn H. Blöndal,
ljósmóðir,
23. febrúar 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.