Blóð í þvagi

24.03.2015

Sælar og takk fyrir frábæran vef. mig langaði til að ath. hvað það getur þýtt ef það mælist blóð í þvagi þegar þvagið er stixað? Ég er komin 38+5 og var í skoðun í morgun. Er búin að vera með háþrýsting lengi sem er enn að hækka (er lyfjalaus), rosalegan bjúg en ekkert prótín er í þvagi sem er frábært að vita þar sem ég fékk slæma meðgöngueitrun á fyrri meðgöngu. Það hræðir mig pínu að fá upplýsingar um að það sé að mælast blóð í þvagi en fá engin svör þegar ég spyr ljósmóðurina og sendi því fyrirspurnina hingað. Með kveðju,

 

Heil og sæl, það gæti verið hugsanlegt að þú sért með sýkingu í þvagi. Mér þykir reyndar líklegt að ljósmóðirin þín hefði þá sent þvagið í nánari rannsókn. Það kemur ekki fram í bréfinu frá þér.  Það er heilmikið álag á nýrum að ganga með barn og stundum kemur fram blóð í þvagi einu sinni og ekki aftur án þess að það þýði neitt. En ef til vill er langlíklegast að það sé einhver hreyfing á leghálsinum hjá þér og þá getur komið pínu blóð án þess að það sjáist með berum augum. Þú ert komin það langt að leghálsinn er farinn að undirbúa sig undir fæðinguna. Gangi þér vel.

 
Bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
24. mars 2015