Spurt og svarað

07. desember 2004

Mænurótardeyfing

Sælar og takk fyrir mjög fróðlegan og góðan vef.

Mig langar að spyrja ykkur um mænurótardeyfingu í fæðingu. Ég á þrjár fæðingar að baki sem allar gengu frekar hratt fyrir sig. Full útvíkkun tók u.þ.b. 2 klst. og hríðarnar mjög harðar og alveg samfelldar þann tíma. Það sem var verst var mikill verkur í bakinu. Ég hef aldrei notað neinar deyfingar nema glaðloftið nema ég fékk jú líka spangardeyfingu í eitt skiptið. Nú á ég von á mér í fjórða sinn og var að velta fyrir mér hvort það myndi henta mér að fá mænurótardeyfingu í þetta sinn til að hægja aðeins á mér og sleppa við þessa hörðu sótt sem virðist einkenna mínar fæðingar? Er kannski ekki hægt að nota þessa deyfingu í svona stuttum fæðingum? Gott væri að heyra aðeins um þetta frá ykkur.

Með fyrirfram þökk,
Lára.

......................................................................

 

Sæl og blessuð verðandi fjögurra barna mamma!

Það er nú ákveðin kostur hjá þér að vera ekkert að eyða of löngum í að fæða börnin þín. Það er hins vegar oft vanmetið hvað það getur verið erfitt að ganga í gegnum ofsalega hraðar fæðingar. Konan fær ekki þann aðlögunartíma að ferlinu sem hún þarf og endar því oft í hálfgerðu sjokki líkamlega og andlega eftir allt saman.

Ég skil að nú á þessari meðgöngu sért þú að velta fyrir þér leiðum til þess að hægja aðeins á hlutunum í komandi fæðingu. Það hvort mænurótardeyfing sé hentug fyrir þig í þessari fæðingu sem þú  átt í vændum er erfitt að fullyrða, hver fæðing er einstök og það er best að fara með opnum og jákvæðum huga inn í hverja fæðingu og taka því sem að höndum ber.

Mænurótardeyfing getur verið mjög gott hjálpartæki fyrir sumar konur og þá sérstaklega þær sem lenda í löngum erfiðum fæðingum. Þessi deyfing er þó ekki alveg gallalaus og getur haft í för með sér leiðinlegar aukaverkanir. Því er það mín skoðun og ljósmæðra yfirleitt, leyfi ég mér að fullyrða, að hana ætti ekki að nota í eðlilegum fæðingum fyrr en búið er að reyna allar aðrar leiðir sem við höfum til að hjálpa konunni.  Mænurótardeyfingar geta hægt á fæðingum og gert þær lengri, en það er ekki hægt að fullyrða að það verði raunin hjá þér.  En ef þú ákveður að þú viljir fá mænurótardeyfingu í þessari fæðingu þá verður vilji þinn að sjálfsögðu virtur.

Ég myndi vilja hvetja þig til að kynna þér aðrar leiðir til verkjastillingar, þú getur meðal annars lesið þig til um þær hér á síðunni undir Verkjastilling, náttúrulegar leiðir. Mig langar sérstaklega að benda þér á að kynna þér nálastungur, en þær gætu hentað þér vel. Margar ljósmæður á fæðingagangi kunna að gefa nálastungur í fæðingu og hafa þær reynst mörgum konum mjög vel.  Nudd og bað eða sturta gæti líka verið gott fyrir þig.

Það fer síðan mikið eftir því á hvaða stigi fæðingin er þegar þú kemur á fæðingastofnunina hvað kemur til með að henta þér best. Vertu ekki feimin við að segja ljósmóðurinni sem tekur á móti þér strax frá fyrri reynslu þinni og hvað þig langar að prófa í þetta skiptið.

Vertu nú bara með opin huga og reyndu að einblína ekki um of á að þetta verði eins og síðast. Kynntu þér vel þá möguleika sem eru í boði, vertu jákvæð og taktu því sem þessi fæðing býður þér upp á.

Gangi þér sem allra best!

Kær kveðja,

Halla Björg Lárusdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
4. desember 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.