Spurt og svarað

30. apríl 2009

Mænurótardeyfing í tvíburafæðingu

Sælar!

Ég var að lesa hjá ykkur textann um tvíburafæðingu sem kom á vefinn ykkar núna í apríl. Ég vildi bara senda inn smá reynslusögu og athugasemd við það að mælt sé með mænurótardeyfingu í tvíburafæðingum á Landspítalanum. Ég á tæplega 4ra ára tvíbura og er því búin að ganga í gegnum tvíburafæðingu. Ég átti í Danmörku þar sem ekki var mælst til því að tvíburamæður fengju mænurótardeyfingu neitt frekar en einburamæður. Ég hefði að sjálfsögðu fengið slíka ef ég hefði óskað eftir henni en mér var ekki boðin hún af fyrra bragði þar sem ég „höndlaði“ verkina ágætlega og góður framgangur í fæðingunni (með drippi reyndar). Fæðingin á fyrra barni gekk eins og í sögu, ég fékk bara að rembast eins og mér hentaði og allt eins og best verður á kosið. Með seinna barnið var hjartslátturinn farinn að hægjast í rembingshríðunum þ.a. mér var gefið súrefni í grímuna og sagt að rembast aðeins meira en hríðin gæfi til kynna og hann fæddist fljótt og vel. Fékk ekki hátt Apgar stig strax eftir fæðingu, en var kominn með það eftir 3 mínútur. Eftir fæðinguna var rætt við mig um fæðinguna og þá sagði ein (læknir eða ljósmóðir) sem var viðstödd fæðinguna að það hefði verið mjög líklegt að ég hefði endað í keisara ef ég hefði verið með mænurótardeyfingu, vegna þess að seinna barnið var farið að slappast. Ég var í mæðraskoðun með 4 öðrum verðandi tvíburamæðrum og enduðu allar í keisara (af mismunandi ástæðum) en þær voru allar búnar að ákveða fyrirfram að fá mænurótardeyfingu svona „just in case“.Því finnst mér alltaf skrítið að leggja hart að tvíburamæðrum að fá mænudeyfingu þar sem mögulega þarf inngrip við seinna barnið ef mænurótardeyfingar geta líka aukið líkur á inngripum. Ekki mikill tilgangur með þessari athugasemd minni, er ekki að óska eftir henni hérna á vefnum, aðallega til upplýsinga fyrir ykkur að þessi verklagsregla um mænurótardeyfingu í tvíburafæðingum geti einnig verið til ama ef aðstæðurnar í fæðingunni eru þannig.

Bestu kveðjur, Eyrún.


Sæl Eyrún og takk fyrir bréfið!

Ég vona að þú sért sátt við að ég birti bréfið þitt en mig langar endilega að fá að birta það hérna því mér finnst þitt sjónarhorn skipta miklu máli og ég get alveg verið sammála þér. Það er mikilvægt að konur kynni sér þessi mál, taki sjálfar ákvörðun og að hún sé virt.

Ég hef starfað á fæðingardeild Landspítala í 6 ár og hef ekki orðið vitni að því að það sé lagt hart að konum að þiggja mænurótardeyfingu í tvíburafæðingu en vissulega er það nefnt við konur í tvíburafæðingu að fyrra bragði en er yfirleitt ekki nefnt við konur sem eru að fæða einbura nema þá ef sérstakar ábendingar eru fyrir slíkri deyfingu, en það er helst ef konur eru með of háan blóðþrýsting.

Ég fagna þessari umræðu og vona að við eigum eftir að ræða meira um tvíburafæðingar hér á síðunni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
30. apríl 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.