Mænurótardeyfing og ?tattoo?

09.06.2004

Ég er komin um 5 mánuði á leið og er mikið farin að spá í fæðingunni. Eitt hefur verið að valda mér nokkrum áhyggjum og það er að ég las einhvers staðar að konur með ?tattoo? á mjóbakinu gætu ekki fengið mænurótardeyfingu.  Er það rétt? Og ef það er rétt af hverju í ósköpunum?

Fyrirfram þakkir.

......................................................................

Sæl og takk fyrir að senda okkur fyrirspurn!

Þetta hefur talsvert verið í umræðunni úti í hinum stóra heimi og ég hef heyrt að einhvers staðar í Svíþjóð hafi svæfingarlæknar ekki viljað leggja mænurótardeyfingu ef stinga þarf í gegn um ?tattoo? á bakinu.  Hættan sem menn velta fyrir sér er sú að litarefni sem eru notuð í ?tattoo? geti borist með stungunálinni inn að mænusekknum.  Margir segja að það sé fráleitt að litarefni berist inn með nálinni þau séu alls ekki fljótandi og því sé ekki hætta á þessu.

Málið er að það hafa ekki verið gerðar rannsóknir á þessu og því er ekkert vitað um það hvort litarefni sem eru í ?tattooi? eru skaðleg ef þau berast með stungunálunum inn að mænusekknum. Sem sagt það er hvorki vitað hvort þetta sé hættulegt eða skaðlaust!

Leitað var til svæfingalækna á Landspítala og þeir bentu á eftirfarandi:

?Það stendur skýrt í lögum um réttindi sjúklinga að þeir ráði þeirri meðferð sem þeir fá. Því er ekkert sem hindrar það ef kona vill mænurótardeyfingu þá á hún rétt á henni. Við munum þó benda henni á að það sé á ábyrgð hennar því við getum ekki útilokað að skaðleg efni geti borist í taugakerfi hennar?.

Samkvæmt þessum upplýsingum þá hefur þú valið, þó að það sé ekki beint auðvelt.  Ég vil hins vegar benda þér á að konur hafa fætt börn í gegn um aldirnar án mænurótardeyfinga og það gera margar konur í dag.  Það eru margir aðrir möguleikar til verkjastillingar og vil ég benda þér á efni um verkjameðferð án lyfja í fæðingu og verkjameðferð í fæðingu með lyfjum hér á síðunni.

Með von um að allt gangi vel hjá þér.

                                                                                             
Yfirfarið 19.6. 2015