Mænurótardeyfing og afleiðing hennar

05.05.2007

Sælar!

Ég er búin að reyna að afla mér upplýsinga á netinu um afleiðingar
mænurótardeyfingar en hef fundið harla lítið. Er það rétt að sumar konur geti orðið fyrir varanlegum skaða eftir að hafa hlotið mænurótardeyfingu t.d. bakverki, verki í fætur o.þ.h?

Kveðja, Anna.


Sælar og takk fyrir að leita til okkar!

Þú spyrð um afleiðingar mænurótadeyfingar.  Já það er rétt að konur geta verið með varanlega skaða þá aðallega tengt þvaglosun, en ég tek það fram að það er mjög sjaldgæft, algengari aukaverkanir eru þær sem eru ekki varanlegar og eru eins og þú segir bakverkir, höfuðverkur, þvagtregða.  Þessar aukaverkanir hverfa yfirleitt á nokkrum dögum eða vikum eftir fæðingu. Mænurótardeyding er inngrip í líkamann sem getur valdið þessum aukaverkunum en þær eru ekki mjög algengar. Þess vegna er verið að hvetja konur til þess að nota aðra verkjastillingu sem er af náttúrulegum toga. Í þeim tilfellum þegar fæðing gengur erfiðlega og gangur fæðingar er hægur geta konur þurft aukna aðstoð við verkjastillingu - og þá getur þessi deyfing verið góður kostur.

Vonandi svarar þetta spurningu þinni

Kveðja,

Steina Þórey Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
5. maí 2007.