Spurt og svarað

20. mars 2011

Mat á útvíkkun í fæðingu

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Ég átti mjög erfiða fæðingu seinast, útvíkkunarferli tók langan tíma og lenti i því að það var að mínu mati of oft athuguð hjá mér útvíkkunin, hún var föst í 1 mjög lengi og mér fannst það bæði draga úr mér þrótt að tilkynna mér það og svo fannst mér skoðanirnar bæði mjög truflandi og óþægilegar. Útvíkkunin var 1 í rúman sólarhring, en eftir þennan sólarhring þá skaust hún uppí 10 á 2 tímum. Sem segir mér að 1 í útvíkkun þýðir engan veginn að 10 klst eru eftir að útvíkkunar tímabilinu eins og svo margir halda fram.

Þannig að spurningar mínar eru þessar,

  1. Til hvers er útvíkkun athuguð?
  2. Hversu nauðsynlegt er það að athuga útvíkkun?
  3. Get ég beðið um það í næstu fæðingu að útvíkkun sé ekki athuguð?

Sæl og blessuð!

Sagan þín er gott dæmi um það hversu breytilegt fæðingarferlið er. Ég ætla að vinda mér beint í spurningarnar:

  1. Oftast útvíkkun í fæðingu skoðuð til þess að meta framgang fæðingar eða til að meta hversu langt fæðingin er kominn. Ef framgangur fæðingar er ekki eðlilegur er reynt að komast að orsökum þess og stundum er ráðlagt að grípa inn í ferlið til að örva það, t.d. með belgjarofi eða hríðaörvandi dreypi í æð. Þetta á að sjálfsögðu allt saman að gera í góðu samráði við hina fæðandi konu. Margir miða við að meta útvíkkun á u.þ.b. 4 klukkustunda fresti en það er alls ekki nauðsynlegt.
  2. Það er ekki nauðsynlegt að skoða útvíkkun í fæðingu nema það skipti verulegu máli að fá upplýsingar um gang fæðingar, t.d. ef það þarf að taka ákvörðun um inngrip, meðferð eða verkjameðferð. Ef móður og barni líður vel er í góðu lagi að leyfa fæðingunni að hafa sinn gang án þess að meta útvíkkun. Það er góð regla að meta ekki útvíkkun nema ætlunin sé að gera eitthvað með skoðunina, þ.e. að taka einhverja ákvörðun um framhaldið út frá skoðuninni. Það ætti ekki að meta útvíkkun bara af forvitni.
  3. Já, að sjálfsögðu getur þú beðið um að þessu verði sleppt. Ef það fagfólk sem sinnir þér í næstu fæðingu sér ríka ástæðu til þess að meta útvíkkun þá biður þú um rökstuðning fyrir því og tekur svo ákvörðun í framhaldinu.

Það getur verið gagnlegt fyrir þig að ræða um síðustu fæðingarreynslu við ljósmóðurina sem sinnti þér í fæðingu eða aðra ljósmóður og eða fæðingarlækni. Landspítalinn býður upp á þjónustu sem heitir „Ljáðu mér eyra”, þar sem ljósmóðir og fæðingarlæknir fara með konu og hennar maka í gegnum erfiða fæðingarupplifun. Hægt er að fá upplýsingar um þessa þjónustu á heimasíðu Kvennasviðs LSH og hægt að panta tíma alla virka daga frá kl. 08:00-16:00 í síma 543 3265, 543 3266.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
20. mars 2011.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.