Spurt og svarað

19. apríl 2011

Mat á útvíkkun. Huglægara en við höldum?

Sælar verið þið ljósmæður góðar!

Mig langaði að forvitnast aðeins í sambandi við mat á útvíkkun. Þannig er að þegar fæðing fyrsta barnsins míns var afar langdregin og gekk fremur illa m.a. vegna þess að hún var í framhöfuðsstöðu. Þetta var frekar erfið reynsla en eitt hefur valdið mér töluverðum vangaveltum og það er matið á útvíkkuninni. Ljósmóðirin og ljósmóðurneminn á dagvaktinni mátu útvíkkunina nokkrum sinnum og sögðu hana komna í u.þ.b. átta þegar vaktinni þeirra var að ljúka en eftir vaktaskiptin kom nokkuð fullorðin ljósmóðir, sem var svona heldur gassalegri en hinar tvær höfðu verið, athugaði útvíkkun og sagði svo, „já, ég myndi segja nákvæmlega fimm“!

Þetta tók alveg úr mér allan kjark og ég varð alveg miður mín því ég hafði haldið að þetta væri nú eitthvað að ganga sem það var svo bara greinilega alls ekki! Barnið kom svo rétt eftir miðnætti eða um átta tímum síðar og þá eftir mænurótardeyfingu, dreypi, tangatog og 4. gráðu rifu. Ljósmóðirin á dagvaktinni hafði alltaf athugað á eftir nemanum og staðfest hennar niðurstöðu. Það sem ég var að velta fyrir mér er kannski fyrst og fremst hversu nákvæmt þetta mat getur verið, því þarna munar nú alveg heilum þremur sentimetrum á mati milli ljósmæðra! Einnig að ef ljósmóðurneminn sem er auðvitað reynsluminni metur útvíkkunina skakkt, er þá ekki eðlilegt að sú sem er með henni leiðrétti það frekar en að taka undir matið. Það sem ég er kannski að velta fyrir mér er hvort þetta mat sé í raun huglægara en við fæðandi konur gerum ráð fyrir? Frumbyrja telur þetta vera nokkuð góðan, hlutlausan mælikvarða á framgang fæðingar og telur áfangana eftir m.a. þessu en þetta er kannski huglægara fyrir ykkur ljósmæður?

Ég tek það fram að síðan hef ég átt eina dásamlega fæðingu og þessi reynsla truflar mig ekki í dag, ég hef unnið nokkuð vel úr henni og myndi ekki kvíða fæðingu ef ég ætti aðra í vændum. Ég hef samt oft velt þessu fyrir mér.


Sæl og blessuð og takk fyrir að deila þessari sögu með okkur!

Það er alveg rétt hjá þér að þetta mat er alls ekki hlutlægt enda ekki hægt að mæla þetta með reglustiku. Við erum sennilega nákvæmari þegar útvíkkun er að byrja og þegar henni er að ljúka en þarna mitt á milli getur þetta verið erfiðara að meta og það er ef til vill ekki nógu vel útskýrt fyrir konum hvernig við metum útvíkkunina. Það er ekki óalgengt að það muni 1-2 sentimetrum á mati milli tveggja fagaðila á vissu tímabili útvíkkunarinnar þannig að það eru ekki óeðlileg skekkjumörk. Oft tölum við líka um að útvíkkun sé 4-5 sm því það getur verið erfitt að segja nákvæmlega hvort hún er 4 eða 5 sm. Ef ljósmóðirin hefur skoðað með ljósmóðurnemanum þá hefði hún átt að leiðrétta mat nemans ef hún hefur ekki verið sammála því en samkvæmt þinni lýsingu þá hefur hún ekki séð ástæðu til þess, sem segir mér að hún hafi verið sammála mati nemans. Það sem getur líka skýrt þennan mismun er að útvíkkunin hafi gengið til baka um 1, 2 eða 3 sm því það gerist stundum. Helsta ástæðan fyrir því er þá hríðarleysi sem gæti verið skýringin í þínu tilfelli því þú nefnir að það hafi þurfti dreypi til að halda áfram.

Vona að þetta skýri málið að einhverju leyti.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
19. apríl 2011.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.