Meðganga og fæðing hjá lágvöxnum konum

27.09.2007

Ég er frekar lágvaxin (158 cm) og mjög fíngerð og grönn. Þarf ég að gera einhverjar ráðstafanir? Er fæðing og meðganga lágvöxnum konum á einhvern hátt erfiðari en öðrum?

Anna.Kæra Anna!

Takk fyrir spurninguna, sem er fremur auðsvarað. Nei, undir öllum venjulegum kringumstæðum þarft þú alls ekki að gera neinar „sérstakar“ ráðstafanir í tengslum við þína fæðingu, aðrar en þær að undirbúa hana eins vel og þér er frekast unnt og fara vel með þig á meðgöngunni. Það kemur hins vegar ekki á óvart að þú spyrjir, því margar fíngerðar konur fá þessar spurningar úti í samfélaginu. Eitt sinn voru t.d. sterkar hugmyndir um það að samræmi væri á milli skóstærðar og grindarmála kvenna, sem og að hæð kvenna skipti þar miklu máli. Ekki hefur verið hægt að sýna fram á að þessar hugmyndir standist vísindalegar athuganir. Á tímabili fóru því flestar  konur í röntgenmynd af mjaðmagrindinni til að mæla svokölluð inngangs- og útgangsmál, þar sem átti að meta hvort konan væru „þess megnug“ að geta fætt ákveðið stórt barn. Það kom hins vegar í ljós að þessar mælingar voru mjög ónákvæmar og gáfu ekki raunhæfa mynd af því hvernig konum gekk að fæða þegar til kastanna kom. Það sem er svo töfrandi við fæðingar er nefnilega það að það er alls ekki hægt að segja fyrir um það hvernig líkami einstakrar konu bregst við í sjálfri fæðingunni. Margt kemur til eins og t.d. að hreyfing og stellingar í fæðingu geta aukið rýmd fæðingarvegarins og reynslan hefur svo sannarlega sýnt fram á að fíngerðar konur eiga síður en svo erfiðara með að ganga með og fæða börn.

Gangi þér vel og njóttu meðgöngunnar.

Bestu kveðjur,

Steinunn H.Blöndal,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
27. september 2007.