Spurt og svarað

12. október 2004

Meðgöngusykursýki og eðlileg fæðing

Sælar ljósmæður og takk fyrir frábæran vef.

Ég var greind með meðgöngusykursýki þegar ég fór í sykurþolspróf. Ég hef verið að lesa mig til um þetta á doktor.is en hef ekki fundið neitt um hvort þetta getur haft áhrif á að fæða eðlilega?
Ég hef heyrt að konur sem fá meðgöngusykursýki séu ekki látnar fæða heldu fara bara í keisara. Er eitthvað til í þessu? Ég varð hálf smeyk þegar ég heyrði þetta en þetta er annað barn og var þetta ekki vandamál á fyrri meðgöngu og var sú fæðing skólabókardæmi.

Kveðja,
Stressuð gengin 22 vikur.

..................................................................

Sæl og takk fyrir að senda okkur fyrirspurn.

Nú þegar þú hefur greinst með meðgöngusykursýki er mikilvægt fyrir þig og barnið þitt að þú fylgir þeim ráðleggingum sem þú færð um mataræði á meðgöngu til þess að halda blóðsykrinum í skefjum því góð blóðsykurstjórnun er lykilatriði. Það hefur einnig verið sýnt fram á að regluleg hreyfing er af hinu góða. Meðgöngusykursýki getur valdið því að barnið verði stærri en ella og það getur auðvitað gert það að verkum að fæðing verði erfiðari. Það skal þó tekið skýrt fram að þættir eins og lögun og stærð grindar móður, kraftur hríðanna og staða barnins geta vegið þyngra en stærð barnins þegar kemur að fæðingu svo það ætti ekki að einblína eingöngu á stærð barnsins. Blóðsykurstjórnunin skiptir verulegu máli hvað stærð barnsins varðar því þegar blóðsykurinn er of hár hjá móðurinni þá verður aukin insúlínframleiðsla hjá barninu og þá stækkar barnið hraðar því insúlín er eitt af vaxtarhormónunum. Það er alls ekki þannig að konur með meðgöngusykursýki fari beint í keisara enda engin ástæða til þess.  Það er hins vegar yfirleitt reynt að framkalla fæðingu í 41. viku hjá konum með meðgöngusykursýki.  Ef þú vilt fræðast nánar um Framköllun fæðingar þá getur þú fundið pistil um það hér á síðunni.

Það er þér í hag að þú hafir fætt áður og að sú fæðing hafi gengið vel en kona sem hefur ekki fætt áður á líka góða möguleika á eðililegri fæðingu þrátt fyrir meðgöngusykursýki.

Vona að þessar upplýsingar minnki stressið!

Yfirfarið, 28.10. 2015

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.