Spurt og svarað

28. júlí 2005

Meðgöngusykursýki og framköllun fæðingar

Komið þið sælar og þakkir fyrir frábæran vef!

Ég er komin 9 vikur af barni númer 2.  Á fyrri meðgöngu var ég greind með skert sykurþol. Ég var á mörkunum að vera með meðgöngusykursýki (gildið hjá mér 7.8)  En ég var þar að leiðandi í eftirliti á Göngudeild sykursjúkra á 2 vikna fresti og mældi blóðsykurinn fyrst 4 sinnum á dag en af því mér gekk svo vel að halda sykrinum niðri mátti ég minnka það niður í 2 sinnum á dag.  En ég var s.s. gangsett með stílum þegar ég var búin að ganga með son minn í 39 vikur og 4 daga en eftir tvær umferðir af stílum, var engin útvíkkun þannig að ég endaði í bráðakeisara og allt gekk bara vel.  Og hann fæddist bara lítill (miðað við að ég var með sykursýkina) 3.085 gr og 51 sm enda náði ég að halda sykrinum niðri og þyngdist bara um 5 kg á meðgöngu en var 5 kg léttari eftir fæðingu.

En mín spurning er sú, ef ég greinist með þetta aftur sem er mjög líklegt vegna líkamsþyngdar og ættarsögu (móðuramma er með sykursýki 1 á háu stigi), má ég þá fara í gangsetningu og þá hvernig yrði hún framkvæmd? Eða er bara ákveðinn keisari? Mig langar svo að upplifa eðlilega fæðingu og vona auðvitað að ég sleppi við þennan kvilla á þessari meðgöngu en ég geri mér samt grein fyrir því að líkurnar á hinu eru meiri. Ég vona að þið getið séð ykkur fært um að svara mér.

Bestu kveðjur, Bumban.

............................................................................

Komdu sæl og takk fyrir að senda okkur fyrirspurn!

Þar sem þú þekkir inn á mataræðið sem þarf til að halda blóðsykrinum í skefjum er gott fyrir þig að fara strax að lifa samkvæmt því. Regluleg hreyfing er líka af hinu góða og hjálpar til við að halda blóðsykrinum í skefjum. Ef þú greinist með meðgöngusykursýki þá er það mikið undir þér komið hvernig útkoman verður, þ.e. hvernig þér gengur að halda blóðsykrinum innan marka.  Nú skilst mér að þú sért léttari en á síðustu meðgöngu og það gæti hafa minnkað líkurnar á því að þú fáir meðgöngusykursýki nú.

Yfirleitt er reynt að framkalla fæðingu á 40. viku hjá konum meðgöngusykursýki eins og var gert hjá þér síðast. Nú horfir málið þó öðruvísi við þar sem þú hefur einu sinni farið í keisara vegna þess að fæðing er yfirleitt ekki framkölluð með stílum hjá konum sem hafa farið í keisara. Það er hins vegar möguleiki að framkalla fæðingu með belgjarofi en þá þarf leghálsinn þinn að vera eitthvað aðeins opinn svo það sé hægt. Þetta er hægt að meta þegar að því kemur.

Ég tel að þú eigir betri möguleika á eðlilegri fæðingu ef þú ferð af stað sjálf og því vil ég ráðleggja þér að ræða þessa ósk þína um eðlilega fæðingu við þína ljósmóður og lækni í meðgönguverndinni.  Ef svo fer að þú greinst með meðgöngusykursýki er mikilvægast af öllu að þú hafir góða stjórn á blóðsykrinum því þá er ekki eins brýnt að framkalla fæðingu fyrir 40. viku.

Vona að þessar upplýsingar komi að gagni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
28. júlí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.