Millibelgjavatn

23.09.2007

Hæ,hæ!

Mig langar að fá að vita allt um millibelgjavatn af hverju allar konur eru ekki með að? Af hverju myndast það? Eiga konur fyrr ef það fer innan 40. viku?

Með fyrir fram þökkum, Guðrún.


Sæl!

Belgirnir sem umlykja fóstrið eru tveir og liggja þétt saman. Annar kallast æðabelgur og er utar en hinn líknarbelgur og er innar. Millibelgjavatn er það kallað þegar hluti legvatnsins, virðist liggja þarna á milli. Stundum virðist koma gat á ytri belg og þá fer þetta millibelgjavatn sem getu verið svolítil gusa. Þá situr eftir líknarbelgurinn og hann getur alveg haldið þar til fæðing hefst. Ég hef ekki séð neitt um það að konur eigi endilega fyrr ef þetta gerist þar sem líknarbelgurinn er ótrúlega sterkur. Í raun og veru hefur þetta lítið að segja ef það finnst að belgur sé heill og ekki heldur áfram að leka legvatn frá konunni.

Að sjálfsögðu ef leki heldur áfram þá er ástæða til að láta meta hvort legvatnið sé í raun og veru farið.

 
Kveðja,
 
Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
23. september 2007.