Mónitor í fæðingu

12.06.2007

Sælar og takk fyrir góðan vef.

Mig langar að spyrja aðeins út í mónitorinn sem sífellt er verið að setja á mann eftir að maður kemur á fæðingardeildina. Getur maður ráðið hvort eða hversu mikið hann er notaður. Mér fannst hann það eina sem truflaði mig í síðustu fæðingu því þá gat ég ekki verið eins ég vildi. Ég spyr einnig vegna þess að í heimafæðingum er þessi mónitor sem kyrrsetur konuna ekki til staðar.

Bestu kveðjur, Helga.


Sæl og blessuð Helga!

Það er aðeins fjallað um gagnsemi mónitora í öðru svari hér á síðunni. Ef allt hefur verið eðlilegt hjá þér á meðgöngunni og allt er eðlilegt þegar þú kemur inn í fæðingu þá á að vera nægjanlegt að hlusta á fósturhjartsláttinn í mínútu í senn á 15 mínútna fresti. Ef hins vegar það reynist vera ástæða til að nota mónitor í fæðingunni þá eru sums staðar til þráðlausir mónitorar, m.a. á fæðingardeild Landspítalans.

Gangi þér vel.

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. júní 2007.