Myndatökur við keisaraskurð

10.05.2006

Sælar!

Mig langaði að forvitnast um eitt mál og það er myndataka við keisaraskurð.  Ég geng með mitt þriðja barn og verður það keisari líkt og hin tvö.  Í hvorugt fyrri skipta hefur myndataka verið leyfð hérna í Reykjavík en ég hef ekki fengið svör hvers vegna það megi ekki. Vitið þið ástæðuna fyrir því? Veit að þetta er leyft á Akranesi og á Akureyri.

Kveðja, Keisaraynjan.


Sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Við höfðum samband við Ólöfu Guðríði Björnsdóttur, deildarstjóra skurðdeildar á Kvennasviði LSH og fengum eftirfarandi upplýsingar: 

„Það hefur verið vinnuregla hjá okkur til fjölda ára að leyfa ekki myndatöku við keisara og oft hafa komið upp umræður um þetta mál. Það var lokað fyrir myndatökur þar sem faðirinn eða aðstandandi var mjög upptekin við myndbandsupptökur og venjulegar myndatökur og áttuðu sig ekki  á að þeir ættu ekki að vera á ferðinni um alla skurðstofu. Á skurðstofu þarf að ganga um samkvæmt mjög ströngum reglum til að fyrirbyggja sýkingu hjá þeim sem er verið að skera upp.  Við teljum einnig að faðir eða aðstandandi eigi fyrst og fremst að vera stuðningur fyrir móður.“

Vonum að þetta skýri málið að einhverju leyti.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
10. maí 2006.