Spurt og svarað

30. júlí 2007

Næring í fæðingu

Sælar og bestu þakkir fyrir þennan viskubrunn!

Mig langar til þess að forvitnast um það hvaða viðmið eru uppi um næringu kvenna í fæðingu. Eins og þið hafið skrifað í svari hér áður getur fæðingin falið í sér heilmikil átök sem standa oftar en ekki í margar klukkustundir. Fyrir mér er það rökrétt að bæta á orkubyrgðir líkamans í þessu ferli, ekki síður en íþróttamenn nærast í keppni sem dregst á langinn, og þá oftast með fremur einföldum kolvetnum. Ég sit hér með nýjustu (2007) útgáfu Lange medical book; Current diagnosis & Treatment - Obstetrics & gynecology þar sem í kaflanum um eðlilegar fæðingar stendur orðrétt "Patients in active labor should aviod ingestion of anything except sips of clear liquids, ice chips or preparations for moistening the mouth and lips. When significant amounts of fluids and calories are required because of long labor, they should be given intravenously". Er hér aðeins verið að tryggja að "sjúklingurinn" sé því sem næst fastandi ef til svæfingar skyldi koma, eða eru önnur rök fyrir þessum skrifum? Eða er málið e.t.v ekki flóknara en svo að konur hafa litla lyst á að borða í fæðingunni?

Með fyrirfram þökkum!


Kæra verðandi móðir!

Ég held að þú hittir naglann á höfuðið um að ástæðan fyrir ráðlagðri föstu í læknabókinni sé fræðilega möguleg svæfing/deyfing við hverja fæðingu. Það er nefnilega þannig að ef sjúklingur kastar upp súru magainnihaldi, í upphafi eða sjálfri svæfingunni,  sem kemst niður í lungun gæti hann (í okkar tilfelli móðirin) fengið alvarlega lungnabólgu. Þetta ástand er nefnt Mendelsonsyndrome og nefnt eftir höfundi rannsóknar frá árinu 1946 um áhættu fæðutöku fyrir svæfingu. Sem betur fer er áhættan á þessum uppköstum ekki mikil og skiptar skoðanir um mikilvægi fyrirbyggjandi áhrifa föstu á súrt magainnihald. T.d. skipti ekki síður máli að fagmennska við svæfingu sé til fyrirmyndar og að reynt sé eftir fremsta megni að gera keisarafæðingar í deyfingu fremur en í svæfingu. Þá hefur líka verið sýnt fram á að ef kona fær morfínskyld verkjalyf í fæðingunni dragi úr magatæmingu og ein verklagsregla gæti því verið sú að draga úr fæðuinntekt eða jafnvel ráðleggja föstu ef slík verkjalyf eru gefin.

Annars hafa fáar rannsóknir verið gerðar um áhrif næringarinntöku á sjálfa fæðinguna. Ég kíkti að gamni í breska ljósmóðurkennslubók frá árinu 2002 þar sem tekin er umræðan um föstu og næringu í fæðingum. Þar eru reifuð mismunandi sjónarhorn en satt best að segja fannst mér gæta ákveðinnar varkárni í bókinni, a.m.k er þar sagt að í breskum sjúkrahúsfæðingum sé ákveðin “stýring” á fæðuinntekt kvenna í fæðingum og þeim ráðlagt að halda sig við fljótandi fæðu. Hér á landi eru ekki sérstakar leiðbeiningar um fæðuinntöku í eðlilegum fæðingum, og konan getur sem sagt sjálf (sem betur fer) ákveðið hvað hún vill borða eða drekka. Mín reynsla er sú að þarfir kvenna í fæðingu hvað varðar mat og drykk eru mjög misjafnar en mín tilfinning (studd af rannsókn um óskir kvenna í fæðingum) er sú að vissan um að „mega” borða og drekka í fæðingunni sé hjálpleg og ýti undir að fæðingin sé eðlilegt ferli. Það þýðir samt ekki að konur almennt séu mjög svangar í fæðingu, síður en svo. En rétt eins og þú segir sjálf, þá er lystin oft ekki mikil, sérstaklega þegar líða tekur á fæðinguna, og þar með leysist oft af sjálfu sér „átökin” um föstu eða ekki föstu í eðlilegum fæðingum...,

Vona að fæðingin þín hafi gengið vel.

Bestu kveðjur,

Steinunn H.Blöndal,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
30. júlí 2007.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.