Spurt og svarað

07. febrúar 2011

Naflastrengur við öxl

Hæhæ og takk fyrir þennan frábæra vef!

Ég var að fá fæðingarskýrsluna mína í hendurnar og í henni stendur að naflastrengurinn hafi komið út við öxl drengsins í fæðingunni. Þegar ég fór upp á spítala var kollurinn óskorðaður (fór með sjúkrabíl) og var það í einhvern tíma eftir að ég kom
upp eftir. Ég man í rembingnum að ljósan sagði mér allt í einu að hætta ekki að rembast og sagði svo eitthvað sem ég man ekki alveg hvað var þegar hann var kominn út því ég var ekki alveg með sjálfri mér þá.  Hann var blár við fæðingu og var lengi að ná lit.  Hvað þýðir þetta, að naflastrengur komi út við öxl barns?  Gæti þetta hafa gerst því hann var óskorðaður til að byrja með eða tengist þetta einhverju öðru? Er fletta líka orsökin fyrir því að hann var blár við fæðingu? Rembingstímabilið var mjög stutt eða aðeins 4 mínútur!

Kærar kveðjur,

Ágústa


Sæl Ágústa.

Öll börn fæðast blá svo það er ekkert óvenjulegt.  Að naflastrengurinn hafi komið með öxlinni þarf ekki að þýða neitt sérstakt. hann hefur bara fylgt barninu og komið út með því.  Kannski var hann frekar langur, kannski var fylgjan ekki mjög ofarlega, það er ekkert sem skiptir í raun máli.  Fæðingin þín (og hans) var bara svona. 

Þegar kollur er óskorðaður þegar legvatn fer höfum við áhyggjur af því að naflastrengurinn fari fram fyrir kollinn og klemmist þannig á milli kollsins og grindarinnar, það gerðist ekki hér sem betur fer.

Ef þú vilt fara betur yfir fæðinguna þína með ljósmóðurinni sem tók á móti getur þú pantað tíma í "Ljáðu mér eyra" á Landspítalanum og fengið að ræða fæðinguna eins og þú vilt.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
7. febrúar 2011.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.