Nálastungur í fæðingu

23.09.2004

Mig langaði að forvitnast um notkun nálastungna við verkjum í fæðingu. Fyrsta stig fæðingar hefur yfirleitt tekið frekar langan tíma hjá mér og mér datt í hug að nálastungur gætu hjálpað til við að lina verkina þegar þar að kemur. Eru margar ljósmæður á Landspítalanum sem beita nálastungum? Þarf maður að taka það sérstaklega fram við komuna þangað að nálastungur séu eitthvað sem maður hafi áhuga á að prófa?

Kveðja, þriggja barna móðir - 34 vikur 1 dag.

......................................................................

Sæl og takk fyrir að senda okkur fyrirspurn.

Það er mjög líklegt að nálastungur geti linað verkina í fæðingunni hjá þér.  Nálastungur hafa sannað gildi sitt og margar konur eru mjög ánægðar með verkun þeirra.  Með nálastungunum er einnig hægt að nota glaðloft, fara í sturtu eða jafnvel í bað. Á fæðingadeildum landsins eru margar ljósmæður sem hafa lært nálastungur og það er mjög líklegt að á hverri vakt sé einhver ljósmóðir sem kann nálastungur.  Það er gott fyrir þig að nefna það strax þegar þú kemur að þú hafir áhuga á nálastungum. 

Hér á síðunni er einnig frekari fróðleikur um nálastungur og aðrar nátturúlegar leiðir til verkjastillingar í fæðingu.

Gangi þér vel.

Yfirfarið, 28.10. 2015