Nett grind

04.08.2004

Hæ hæ!

Mig langaði aðeins að forvitnast? Hvað þýðir það að vera með netta grind? Verður fæðingin þá erfiðari? Fæðingarlæknirinn sagði þetta við mig og ég hafði ekki vit á að spyrja hvað það merkir.

Kveðja,
Septemberbumba.

.......................................................

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Mjaðmagrindin samanstendur af þrem beinum. Þau eru tengd saman með brjóski og eru nokkurs konar liðamót. Þar sem mjaðmagrindin tengir hryggsúlu og ganglimi er að öllu jöfnu ekki mikil hreyfing á þessum liðamótum. Á meðgöngutímanum mýkjast þessi liðbönd upp og gefa þannig meira pláss.  Stærð og lögun mjaðmagrindarinnar er mjög mismunandi eins og konur eru misjafnar. Til að fæðing gangi sem best fyrir sig þá skiptir stærð mjaðmagrindar auðvitað máli, hún verður að vera nægjanlega stór svo höfuð barnsins komist í gegn. Lögun grindarinnar er einnig mikilvæg. Inngangsop eðlilegrar grindar er vítt og hringlaga og veitir nægjanlegt pláss til að barnið geti fæðst. Ef grindin er hefur fremur þríhyrningslaga op eða flatt inngangsop getur það hægt á framgangi fæðingarinnar.  

Nú á dögum er lítið gert af því að grindarmæla konur fyrir fæðingu því þessi mál eru ekki talin geta sagt fyrir um gang fæðingarinnar ein og sér vegna þess að þættir eins og stærð barnsins, kraftur hríðanna og staða barnsins í grindinni skipta í raun jafn miklu máli þegar að fæðingunni kemur.  Það er því alls ekki hægt að fullyrða að kona með netta grind eigi erfitt með að fæða barn né heldur að kona með stóra grind geti fætt auðveldlega.

Ég ráðlegg þér að ræða við þína ljósmóður eða fæðingalækninn í næstu mæðraskoðun og spyrja betur út í þetta.

Yfirfarið, 28.10. 2015.