Spurt og svarað

09. nóvember 2006

Nokkrar spurningar í sambandi við Herpes

Hæ, hæ.

Þannig er mál með vexti að ég er með kynfæraherpes. Ég eignaðist mitt fyrsta barn fyrir örfáum mánuðum og er nú með miklar áhyggjur að hafa smitað það við fæðingu. Ég hef lesið mér mikið til um þetta en einhvern veginn er maður aldrei rólegur. Nú er sagt að það séu minni líkur á að barnið smitist ef mamman hefur fengið útbrot áður en hún verður ólétt. En hversu miklar líkur eru á að það smitist þó svo ég hafi fengið útbrot fyrir óléttu? Ég var ekki með útbrot í fæðingu. Eru þá minni líkur á að barnið mitt hafi smitast af mér? Ég las í grein frá ykkur að börn geti smitast út frá sárum mæðranna, er þá eingöngu verið að tala um herpessár eða bara venjuleg sár ef maður hruflast eitthvað? Nú fær barnið mitt stundum útbrot á rassinn eins og mörg önnur börn, hvernig get ég vitað hvort þetta séu eðlileg útbrot eða hvort þetta séu herpessár? Er eina leiðin að fara til læknis? Í fyrstu mæðraskoðun lét ég vita að ég væri með herpes og mér fannst af lækninum eins og það væri lítil sem engin áhætta fyrir barnið út af því ég hafði fengið útbrot áður en ég varð ólétt þannig að ég hafði ekkert rosalegar áhyggjur þá. Svo er ég búin að vera að lesa ýmsar greinar og misjafnt hvað maður les út úr þeim varðandi áhættu fyrir barnið. Er þetta meira mál en mér fannst læknirinn gefa í skyn eða er ég að hafa óþarfa áhyggjur? Það væri ósköp indælt að fá svör við þessum spurningum (þó svo eitthvað hafi verið rætt um þetta áður) því ég er að fara yfir um af áhyggjum!

Með þökk, áhyggjufulla mamman.


Sæl og takk fyrir að leita á ljósmóðir.is

Í fyrsta lagi þá held ég að þú getir alveg verið róleg með það að litla barnið þitt sé ekki sýkt af herpes, eða hafi sýkst alvarlega í fæðingunni. Barnið þitt er orðið nokkurra mánaða gamalt og þar með komið úr hættu á því að hafa sýkst við fæðingu. En ég skil þig vel að finnast þær upplýsingar sem til eru um þessa sýkingu, eða smithættu ruglingslegar. Það er rétt sem læknirinn sagði við þig, að þar sem þú berð veiruna í blóði og gerðir áður en þú varðst ófrísk eru mjög litlar líkur á því að barnið smitist, en hættan á smiti í sjálfri fæðingunni eru litlar eða frá 0-3% og hjá þér eru sérstaklega litlar líkur þar sem þú varst ekki með útbrot í fæðingunni. Ef barn sýkist þá er líklegast að það gerist í sjálfri fæðingunni (en ég endurtek að í þínu tilfelli er það mjög ólíklegt) og mjög ólíklegt er að barn sýkist eftir fæðingu, en eins og þú líklega veist berst herpes með snertingu.  En þar sem þú ert að velta því fyrir þér hvort hugsanlega hafi barnið getað sýkst í fæðingunni þá er hægt að skipta herpes sýkingu í fæðingu upp í  tvær birtingarmyndir. Annars vegar er um mjög alvarlegan sjúkdóm að ræða, þar sem sýkingin verður útbreidd í líkamanum og getur valdið mjög alvarlegum einkennum eins og t.d.lungnabólgu, lifrarbólgu og jafnvel heilahimnubólgu sem geta leitt til varanlegs skaða hjá barni og jafnvel dauða. Þessi einkenni birtast yfirleitt  á 9-11 degi eftir fæðingu, en geta þó birst allt upp í 4 vikum eftir fæðinguna. Hins vegar útbrot  þar sem barnið getur fengið sár á húð,  í munn eða augu. Þessi einkenni birtast yfirleitt á 15-17 degi en geta birst allt upp í 4 vikum eftir fæðingu, en barnið hefur góðar horfur á bata með meðferð.

Hvort ungabarn geti sýkst löngu eftir fæðingu er mjög sjaldgægt, en rétt er að minna á að þeir sem hafa útbrot eða áblástur á vörum eiga að  fara varlega hvað varðar nána snertingu í umgengni við ungabarn. Ég rakst líka á að fræðilega gæti herpes verið á geirvörtu ef konan hefur fengið sár á hana og þá er fræðilegar líkur á smiti, en þetta er mjög sjaldgæft. Mikilvægt er að þú vitir að barnið getur einungis smitast frá herpessárum, þannig að ef þú hruflar þig á hendi þarft þú ekki að hafa áhyggjur af því að smita barnið þitt af herpes sýkingu, þótt þú berir sýkingu í blóði. Herpes útbrot eru þannig að þau byrja sem vökvafylltar blöðrur, þorna svo og mynda svo sár og gróa. Það er ólíklegt að þau útbrot sem barnið þitt hefur á rassinum séu þannig tilkomin, en ef þér finnst þau eitthvað mjög ólík „eðlilegum“ útbrotum gætir þú haft samband við heilsugæslustöðina þína og fengið skoðun hjá hjúkrunarfræðingi eða lækni.

Með von um að þetta hafi svarað einhverjum spurningum.

Kærar kveðjur og gangi þér vel,

Steinunn H.Blöndal,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
9. nóvember 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.