Nýtt vinnulag við gangsetningar á LSH

11.08.2008

Sælar!

Takk fyrir frábæran vef, ég hef nýtt mér hann mikið á meðgöngunni.

Mig langar að vita hvernig nýju leiðbeiningarnar varðandi gangsetningar eru, sumir segja að nú sé gangsett við 41 viku og 3 daga ef konan er ekki farin sjálf af stað þá enn aðrir hafa sagt mér að það sé ekkert gert fyrr en við 42 vikur sléttar. Hvernig er þetta eignlega núna?

Og annað, hvaða lyf er það sem er sett undir tungu í gangsetningum og virkar víst svona rosalega hratt?

Kveðja frá einni sem er alveg viss um að enda í gangsetningu.


Sæl og blessuð!

Í maí sl. var vinnulagi við framkvæmd gangsetninga breytt á LSH.

Þegar meðgöngulengd er 41 viku býður ljósmóðir í mæðravernd upp á belgjalosun og óskar jafnframt eftir því að framköllun fæðingar verði reynd á næstu dögum, hafi kona ekki þegar fætt. Ljósmóðirin sendir beiðni á Kvennadeild Landspítala og þaðan verður haft samband við konuna til að ákveða dag og tíma og gefa nánari upplýsingar. Reynt verði að koma fæðingu af stað þegar meðgangan er orðin eða nálgast það að verða 42 vikur. Í einstaka tilfellum er fæðing framkölluð þegar meðgöngulengd er 41 vika og 3 dagar en það er reynt að miða við að framkalla fæðingu þegar meðgöngulengd er sem næst 42 vikum nema ef sjúkdómar hjá móður eða barni kalla á framköllun fæðingar fyrr.

Við framköllun fæðinga er aðallega notast við tvær aðferðir:

  1. Gefin er Cytotec tafla undir tungu. Hún veldur samdráttum í legi og styttir og mýkir leghálsinn. Verði engar hríðir eftir fyrstu töfluna, er gefin tafla á 4 klst fresti, mest 4 sinnum. Þegar hríðir hafa staðið um tíma er þreifað á leghálsinum og metið hvort hægt sé að gera belgjarof.
  2. Belgjarof. Gert er gat á belgina sem umlykja barnið með lítilli plastklóru. Það getur komið af stað samdráttum. Ef hríðir byrja ekki eftir 1-2 klukkustundir þarf að nota hríðaörvandi lyf (dripp), sem gefið er í æð.

Kona kemur á meðgöngudeild 22B eða fæðingargang 23A ýmist að morgni eða kvöldi. Komi kona að kvöldi bjóða aðstæður því miður ekki upp á að maki geti verið yfir nótt.

Sjá nánar um framköllun fæðinga hér á síðunni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
11. ágúst 2008.