Of veikar hríðar

11.01.2008

Ég á 2 börn og þegar ég átti þau þá þurfti ég í bæði skiptin hríðaukandi dreypi því að ljósmæðurnar sögðu að ég greinilega myndaði ekki nógu gagnlegar hríðar sjálf. Í fyrra skiptið var ég sett af stað vegna þess að ég missti vatnið og eftir að hafa fengið stíla og allt hvað eina þá var sett upp dreypi því ég fór ekkert af stað. Í seinna skiptið var ég búin að vera með reglulega samdrætti í fleiri fleiri daga og komin með 3 í útvíkkun, á endanum var sett upp dreypi hjá mér svo ég myndi hrökkva almennilega í gang. Í bæði skiptin gengu fæðingarnar fljótt og vel. Svo ég spyr, ætli ég þurfi alltaf svona aðstoð?

Takk kærlega.

Kveðja, Píslið.


Sæl og blessuð!

Nú verður þetta bara að koma í ljós. Auðvitað ættir þú að geta myndað þau hormón sem þarf til að koma fæðingu af stað og viðhalda hríðum þar til barnið er fætt. Nú veit ég ekki um aðstæður þínar en kannski hefur verið gripið inn í of snemma og þú ekki fengið tækifæri til að gera þetta sjálf.

Vona að allt gangi vel hjá þér á meðgöngu og í fæðingu.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
11. janúar 2008.