Offita, áhrif á fæðinguna

28.07.2005

Góðan daginn!

Er að velta fyrir mér - ég er vel of þung og stór og er að klára mína frystu meðgöngu, komin 37 vikur. Það hefur allt gengið vel á meðgöngunni og engir kvillar verið að hrjá okkur.  Er því að velta fyrir mér með fæðinguna sjálfa og hvaða áhættuþættir eru líklegri til að koma upp á hjá of feitum mæðrum? Get bara fundið upplýsingar um meðgöngukvilla vegna offitu en ekki með sjálfa fæðinguna og er því að velta fyrir mér hvort það sé eittvað sérstakt sem kemur frekar upp í þessum tilfellum?

Kærar þakkir fyrir frábæran vef.

...................................................................

Sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Samkvæmt rannsóknum eiga of þungar konur frekar á hættu að lenda í framköllun fæðingar, lengdri fæðingu, keisarafæðingu, axlarklemmu, sýkingum, blæðingu eftir fæðingu, vandamálum í svæfingu og deyfingu og þær dvelja fyrir vikið lengur á sjúkrahúsum. Meðal meðgöngulengd er svipuð hjá of þungum konum og þeim sem eru í kjörþyngd. Tíðni fyrirburafæðinga er svipuð eða jafnvel minni.

Í rannsókn frá árinu 2004 þar sem gerður er samanburður á konum (n=16102) sem voru með LÞS <30, LÞS 30-34.0 og >35 reyndist tíðni keisaraskurða hjá frumbyrjum í hópunum vera 20.,7%, 33.8% og 47.4%. Eru þessar tölur sláandi. Bent hefur verið á að há tíðni keisaraskurða hjá konum í ofþyngd virðist ekki tengjast ofþyngdinni sjálfri heldur þeim kvillum sem henni geta fylgt eins og háþrýstingi og sykursýki. Helstu ástæður aðrar fyrir tíðni keisaraskurða hjá konum í ofþyngd eru stöðvun á framgangi fæðingar, fósturstreita og misheppnuð framköllun fæðingar.

Þar sem þú segist vera hraust ertu ekki með áhættuþætti eins og hækkaðan blóðþrýsting eða sykursýki sem er mikill kostur því oft er reynt að framkalla fæðingu hjá konum með slíka áhættuþætti og keisaratíðni er nefnilega hærri þegar um framköllun fæðingar er að ræða. Þess vegna er meiri möguleiki á eðlilegri fæðingu ef þú ferð af stað sjálf.

Þú átt góða möguleika á eðlilegri fæðingu og ættir bara að vera bjartsýn á það. Líkami konunnar er skapaður til að ganga með börn og fæða og því ættir þú ekki að geta það?

Vona að allt gangi vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
28. júlí 2005.

Heimild: Brynja Pála Helgadóttir (2004). Ofþyngd barnshafandi kvenna, áhrif á meðgöngu, fæðingu og nýbura. Lokaverkefni í ljósmóðurfræði.