Ógleði í fæðingu

19.09.2013
Góðan dag og takk fyrir frábæran vef!
Ég er búin að sækja ýmsan fróðleik hingað á meðgöngunni. En nú líður að fæðingu hjá mér og ég er að velta ýmsu fyrir mér. Þegar ég átti eldra barnið mitt varð mér mjög óglatt þegar hríðarnar voru orðnar sterkar og kvíði ég svolítið fyrir þessu. Er eitthvað hægt að gera til að sporna gegn ógleði, tíðkast það til dæmis að gefa fæðandi konum lyf við ógleði? Var búin að heyra að piparmyntu ilmkjarnaolía hefði góð áhrif á ógleði. Er eitthvað til í þessu og er þetta þá eitthvað sem maður þarf að kaupa sjálfur og taka með á fæðingardeildina? Ef svo er hvar er hægt að nálgast slíka olíu?
Sæl vertu og gott að heyra að vefurinn hefur gagnast þér.
Hvað varðar spurningu þína um ógleði, þá er ekki mikið um að við gefum lyf til varnar ógleði í fæðingu, þó er stundum gefið verkjalyfið pethidin og með því annað lyf sem heitir phenergan sem hefur meðal annars ógleðistillandi verkun. Piparmyntuilmkjarnaolía hefur góð áhrif gegn ógleði eins og þú réttilega segir. Í  1. tbl. af Ljósmæðrablaðinu frá 2010 er góð grein eftir Önnu Sigríði Vernharðsdóttur um ilmkjarnaolíur þar segir einmitt um piparmyntuna: “Meðganga: Ógleði, uppköst, brjóstsviði, meltingartruflanir, hægðatregða, vöðvapirringur og vöðvaverkir, höfuðverkur, pirringur í húð, streita og kvíði. Fæðing: Verkjastilling, styrkir hríðar.Má blanda við: lavender og sítrusolíur“. Ég hvet þig til að kíkja á greinina og lesa þér betur til um notkun og verkun ilmkjarnaolía. Það er ekki nema sjálfsagt að þú komir með þína olíu með þér, ef þú vilt en einmitt líka gott að þekkja hvernig best er að nota hana.
Ég leitaði á vefnum hvar hægt er að kaupa olíurnar. Það er tildæmis hægt að fá þær í Jurtaapótekinu hjá Kolbrúnu grasalækni, hjá Yggdrasil og Önnu Rósu grasalækni. Hins vegar veit ég ekki hvort munur er á þessum olíum, eða þekki gæði þeirra  eða verð.
Gangi þér vel á lokasprettinum og vonandi verður ógleðin ekki að plaga þig í fæðingunni.Bestu kveðjur,
Björg Sigurðardóttir,
ljósmóðir,
19. september 2013.