Óskorðað barn og byrjun fæðingar

26.09.2005
Sæl og takk fyrir frábæran vef.
Mig langar svo að spyrja um þegar barn skorðar sig ekki.  Þannig er að ég er gengin 40 vikur og barnið er ekki enn búið að skorða sig.  Ljósmóðirin mín hefur ekki áhyggjur af þessu því þetta er barn nr. 2 hjá mér og stelpan mín skorðaði sig í 37 viku síðast og fæddist "eðlilega".
Gæti þetta þýtt, að barnið sé ekki skorðað, að ég gangi mikið framyfir?
Hvað er það sem kemur fæðingunni í gang?
Með fyrirfram þökk
Ingibjörg
 
............................................
 
Sæl Ingibjörg.
 
Það er mjög algegnt að annað (eða seinni) barn skorði sig ekki fyrr en í fæðingunni og er þetta helst vegna þess að nú er meira pláss en hjá því fyrsta (kviðvöðvar eru oftast slakari).  Þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af, þessi börn fæðast ekkert síður eðlilega en þau sem skorða sig fyrr, og það þýðir ekkert ekki  endilega að þú gangir framyfir áætlaðan fæðingatíma.  Það er samt mikilvægt að fylgjast með því hvort kollurinn er skorðaður til aðgeta brugðist rétt við ef legvatnið fer. Konur með óskorðaðan koll og farið legvatn eiga að leggjast niður og koma á fæðingadeild með sjúkrabíl.
Það er ekki vitað með vissu hvað það er sem kemur fæðingu af stað en talið er að það sé samspil milli þess að barnið og mamman eru tilbúin.  Inn í þetta fléttast flókið hormónaferli hjá þeim báðum.
 
Vona að þetta svari spurningunum.
 
Kær kveðja
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. 
26.09.2005.