Spurt og svarað

26. október 2008

Óskorðaður kollur - legvatn fer. Hvert á að hringja?

Smá vangaveltur. Kannski eru hormónarnir að stríða mér, en maður fær áhyggjur af öllu mögulegu þessa dagana. Samkvæmt öðrum fyrirspurnum á maður að koma niður á deild í liggjandi stöðu og sjúkrabíl ef maður missir vatnið áður en barn hefur skorðað sig.

Á að hringja í 112, á fæðingadeild, eða bæði? Veit t.d. neyðarlínufólkið af hættunni á því að naflastrengurinn lendi í klemmu eða þarf maður að hafa vit á að segja e-ð töfraorð? Hvað ef maður er í gönguferð utan bílaleiða? Við hjónin förum oft út að ganga í Heiðmörk, á maður bara að leggjast niður, eða á fjóra og bíða eftir sjúkrabíl/þyrlu? Þarf maður ekki á endanum að skríða upp á vegarslóða?

Kveðja, frú 41 vika og óskorðað barn.


Sæl og blessuð!

Ef barnið er ekki skorðað og þú missir vatnið þá er rétt að þú leggist niður þar sem þú ert stödd og hringja í 112 til að kalla á sjúkrabíl. Töfraorðin eru þau að segja satt og rétt frá þ.e. að þú sért með óskorðaðan koll og að legvatnið hafi verið að fara. Ef þú ert stödd á stað þar sem erfitt er að koma með venjulegar sjúkrabörur þá er rétt að segja frá því þegar hringt er í Neyðarlínu því sjúkraflutningamenn hafa ráð með að sækja þig þar sem þú ert.

Sjúkraflutningamenn hafa svo samband við fæðingardeild til að boða komu ykkar.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. október 2008.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.