Spurt og svarað

24. júní 2005

Óskorðaður kollur, legvatn fer

Sæl og takk fyrir góða síðu.

Ég er komin 40 vikur og barnið er ekki enn búið að skorða sig. Ljósmóðirin mín segir að það sé mjög ósennilegt að barnið geri það þar sem kollurinn er mjög laus. Ljósmóðirin sagði við mig að ég yrði að leggjast niður ef vatnið færi og hringja á sjúkrabíl. Það sem mig langar að vita en finn ekki neitt um er hvað gerist eða hvaða hætta er á ferð þegar vatn fer og barnið er ekki búið að skorða sig?

............................................................................

Sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Mig langar að byrja á því að tala um þetta skemmtilega orðalag sem notum gjarnan um legvatnið. Við segjum að „vatnið fari“ og ég hef orðið vör við að þetta veldur misskilningi hjá mörgum sem halda að vatnið bara fari alveg. Í raun væri réttara að segja að „vatnið byrji að leka“ því það fer ekki allt á einu bretti heldur byrjar að leka og minnkar smám saman. Vatnið heldur áfram að framleiðast svo það klárast heldur ekki og „fer“ því ekki. Reyndar geta komið ansi miklar gusur ef vatnið byrjar að leka þegar kollurinn er óskorðaður en þegar kollurinn er skorðaður fer yfirleitt bara vatnið sem er fyrir neðan kollinn og svo fer smám saman meira t.d. við samdrætti, hríðar eða hreyfingu. Kollurinn getur því virkað eins og „tappi í gati“.

Yfirleitt er kollur búin að skorða sig vel fyrir fæðingu hjá frumbyrjum en hjá fjölbyrjum kemur það frekar fyrir að kollur skorðar sig ekki fyrr en fæðing hefst. Kollurinn getur skorðað sig hvenær sem er en ef kollur var óskorðaður í síðustu skoðun eða ef barnið er ekki í höfuðstöðu (sitjandi eða í þverlegu) og legvatn fer að renna er rétt að leggjast niður og panta flutning með sjúkrabíl á fæðingadeild. Ástæðan er sú að þegar vatnið fer að renna er sú hætta fyrir hendi að naflastrengur falli fram fyrir höfuð sem ekki er skorðað og við það getur strengurinn klemmst. Ef hins vegar kollurinn er skorðaður er ekki hætta á þessu þar sem kollurinn fyllir út í rýmið.  Við það að leggjast niður eða fara á fjóra fætur og leggjast fram á hendurnar og láta rassinn vísa upp minnka líkurnar á að strengurinn falli fram eða að strengurinn klemmist. Það er rétt að taka það fram að hættan á naflastrengsframfalli er ekki mjög mikil þó að vatn fari og kollur sé óskorðaður en hún er fyrir hendi og því er vissara að viðhafa þessar varúðarráðstafanir og bera fulla virðingu fyrir þessari hættu hvar sem kona er stödd þegar þetta gerist.

Vona að þetta skýri málið.

Jónsmessukveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. júní 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.