Phenergan og bað í fæðingu

06.11.2006

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

Ég að eiga eftir tvær vikur og ég stefni á að eiga í Hreiðrinu. Ég hef hins vegar glímt við mikil kvíðaköst í langan tíma og kvíði fæðingunni. Ég er nokkurn veginn komin inná að biðja um Phenergan, en sleppa Petidíni.  Nú var mér sagt þegar ég fór í skoðun á Hreiðrið að ef ég fengi Petidín gæti ég ekki notað baðið, út af hættu við að geta ekki haldið mér vakandi.  Ef ég fæ bara Phenergan, má ég þá fara í baðið?  Verð ég of sljó til að geta verið í baðinu?


Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Það er allt í lagi að fara í baðið eftir að hafa fengið Phenergan.  Phenergan hefur ógleði- og kvíðastillandi áhrif en ekki sljóvgandi áhrif.  Þú þarft því ekki að hafa áhyggjur af því að fá ekki þetta lyf í fæðingunni ef þú óskar þess.

Ég óska þér alls hins besta og góðu gengi í fæðingunni,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
6. nóvember 2006.