Rakstur fyrir fæðingu

24.01.2005

Halló og takk fyrir góðan vef sem ég er búin að nota mjög mikið.

Fyrirspurn mín er kannski fáránleg en ég ætla samt að skjóta :) Ég veit nú ekki heldur hvort ég næ að fá svarið í tæka tíð þar sem ég er kominn 39 vikur og búin að vera að drepast úr fyrirvaraverkjum en vona nú að ná alla vega 40 vikum. 

Er betra að hafa svæðið í kringum spöngina rakað eða má raka þarna niðri yfir höfuð núna? Þá er ég einna helst að pæla ef það þarf að sauma ef maður rifnar eða er klipptur. Ég veit ekki af hverju ég er að spá í þessu núna en gerði það ekki fyrir hinar fæðingarnar. Maður pælir í ótrúlegustu hlutum á þessum tíma.

Kveðja, Þriðja bumba.


Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Á árum áður voru konur rakaðar fyrir fæðingu en það er ekki gert lengur. Það var sennilega gert af hreinlætisástæðum enda átti helst allt að vera dauðhreinsað í kringum fæðingar. Það er engin þörf á að raka í kringum spöngina en það er heldur ekkert sem mælir á móti því ef þig langar til þess. Ef svo færi að það þyrfti að sauma þig eftir fæðinguna þá eru hárin sjaldnast að þvælast fyrir.

Yfirfarið 28.október 2015