Spurt og svarað

12. mars 2011

Réttur á sérþörfum í fæðingu

Sælar og takk fyrir góðan vef!

Ég er mikið búin að velta fyrir hinu þessu sem ég vill alls ekki í fæðingunni og langar að spyrja ykkur hvort að maður hafi rétt á að neita ýmsum meðferðum. Hef ég rétt á að neita að fá mænurótardeyfingu þó að útvíkkun stoppi og það þurfi að setja upp dripp? Ég fékk mænurótardeyfingu í síðustu fæðingu og fannst það skelfilegt og finn enn stundum til á stungusvæðinu og það leiðir niður. Ég vill alls ekki að barnið mitt sé tekið með sogklukku. Hef ég rétt á að neita að notuð sé sogklukka? Ef að fæðingin endar í keisara þá vill ég alls alls ekki vera vakandi á meðan það er gert. Hef ég rétt á að vera svæfð eða er maður neyddur til að þiggja mænudeyfingu og vera vakandi í skurðaðgerð?

Kveðja, Ein pínu stressuð.


Sæl og blessuð!

Þú hefur fullan rétt á neita meðferð sem þér stendur til boða og það á ekki að neyða fólk til að þiggja eitthvað sem það ekki vill. Það er hlutverk fagfólksins að gefa þér allar þær upplýsingar um þá valkosti sem eru í boði og ganga úr skugga um að þú meðtakir þær og gerir þér grein fyrir mismunandi valkostum. Þannig getur þú tekið upplýsta ákvörðun um það sem stendur til boða.

Mænurótardeyfing í fæðingu er í flestum tilfellum val konu en auðvitað koma upp tilfelli þar sem fagfólk mælir með slíkri deyfingu en það á samt sem áður alltaf að vera ákvörðun konunnar. Þegar kemur að því að meta valkosti til verkjastillingar við keisaraskurð muntu t.d. fá upplýsingar um margfalda áhættu við svæfingu til móts við mænudeyfingu eða mænurótardeyfingu. Það eru margir ókostir við svæfinguna sem þú þyrftir að fá betri upplýsingar um áður en þú tekur ákvörðun um að þiggja ekki mænudeyfingu eða mænurótardeyfingu ef til þess kæmi að gera þyrfti bráðakeisaraskurð. Þegar nota þarf sogklukku til að hjálpa barninu í heiminn geta legið nokkrar ástæður að baki. Ef það er útilokað að það megi nota sogklukku hjá þér þá þarftu vita hvaða aðrir kostir koma til greina og hvað það getur þýtt. Í sumum tilfellum er hægt að nota tangir (veit ekki hvort þér líst á það) en svo er það keisaraskurður. Þarna skiptir miklu máli hver ábendingin fyrir sogklukku væri. Ef það væri vegna þreytu móður (getur ekki meira) eða vegna þess að barnið færist ekkert neðar og virðist ekki ætla að komast að sjálfu sér þá væri kannski hægt að nota töng en annars er hægt að fara í keisaraskurð. Fæðing með keisaraskurði tekur lengri tíma en sogklukkufæðing og því getur verið slæmt að útiloka sogklukkufæðingu fyrirfram ef ábendingin væri ástand barnsins, því þá skiptir tíminn miklu máli.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en vona að ég hafi eitthvað getað róað þig og hvet þig til að ræða þetta vel við ljósmóðurina þín í mæðravernd í næsta tíma. Þú ættir að gera uppkast að óskalista og sýna henni.

Ég verð nú að bæta því við að það eru allar líkur á að næsta fæðing gangi miklu betur en sú fyrsta.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. mars 2011.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.