Rifnaði frekar mikið

04.11.2005

Góðan dag og takk fyrir góðan vef.

Mig langar til að spyrja um svolítið sem ég finn ekki mikið um á netinu og virðist vera nokkuð feimnismál (enda finnst mér ekki auðvelt að tala um þetta). Ég eignaðist mitt fyrsta barn fyrir 4 mánuðum og rifnaði frekar mikið (3. gráðu) og var saumuð. Í eftirskoðun kom í ljós að hringvöðvinn hafði skemmst enda hafði ég fundið það að hann virkaði ekki sem skildi því loftið kemur þegar það vill. Ég fór og hitti skurðlækni sem gerir svona aðgerðir og mér líður ekki alveg nógu vel með það sem hann sagði mér. Best er að framkvæma svona aðgerð sem fyrst (enda vil ég ekki vera svona), því þá eru meiri líkur á fullum bata. En þegar búið er að gera svona aðgerð er erfitt að gera hana aftur. Læknirinn sagði að þess vegna gæti verið að ég þyrfti að fara í keisaraskurð þegar ég ætti næsta barn (barnið sem ég á var ekki stórt þegar það fæddist). Er slæmt fyrir mig að þurfa að fara í keisaraskurð? Helst vildi ég fæða barn eðlilega en ég vil heldur ekki rifna aftur og vera með varanlega skemmdan hringvöðva:-(

Kær kveðja.

.......................................................................................................

Sæl og blessuð og takk fyrir að senda okkur fyrirspurn!

Mér þykir leitt að heyra að þú hafir rifnað svona illa. Þetta er eitt af því leiðinlegasta sem maður situr uppi með sem afleiðingu af fæðingu. En sem betur fer gengur oftast vel að laga þetta. Einstaka konur rifna svo illa að þeim er ekki ráðlagt að fæða um fæðingaveg aftur, og þurfa því að fara í keisaraskurð þegar þær eignast næsta barn. Ástæðan fyrir þessu er að þær geta átt á hættu að stríða við vandamál tengt stjórnun á hægðalosun alla ævi. Þá er í sumum tilfellum talin betri kostur að gera keisaraskurð og koma í veg fyrir að þetta vandamál verði að veruleika. Mér finnst að þú ættir að vera í sambandi við kvenskjúkdómalækninn þinn og heyra hvað viðkomandi hefur um málið að segja því kvensjúkdómalæknar og skurðlæknar eru sérfræðingar á þessu sviði.

Með bestu kveðju og ósk um gott gengi,

Halla Björg Lárusdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
4. nóvember 2005.