Spurt og svarað

05. júní 2009

Salernisferðir í fæðingu

Góðan dag og takk fyrir frábæran vef.

Ég er að fara að eiga mitt fyrsta barn og eins og fleiri er ég töluvert stressuð. Ég er búin að lesa mér til í fjöldanum öllum af bókum um meðgöngu og fæðingu en hvergi virðist minnst á hvernig háttar til með þvag og hægðir í fæðingunni, það er eins og þetta sé algjört leyndarmál. Má maður t.d. fara á klósettið á fæðingatímabilinu og þá hvenær og hvenær ekki (í raun er ég að spyrja um allan tímann frá því að kona mætir á fæðingadeildina og þar til barnið er fætt)? Ég las hér á vefnum að það sé eðlilegt og mjög algengt að losa einhverjar hægðir í fæðingunni en lætur maður það þá bara gossa í rúmið eða má standa upp og fara á klósett? Á maður að reyna að vera búinn að losa sig við hægðir áður en mætt er á fæðingadeildina? Þetta eru kannski skrítnar pælingar en engu að síður eitthvað sem ég er búin að hugsa mikið um og langar að fá svör við. Ég finn litlar sem engar upplýsingar um þetta í öllum þessum fínu bókum og ef ég spyr vinkonurnar sem hafa fætt börn verða þær vandræðalegar og vilja lítið segja. Mér finnst þetta frekar ógeðfelld tilhugsun og vil gjarnan vera undir þetta búin, vita á hverju ég á von.

Vonandi getið þið sent mér einhverjar línur sem útskýra málið.

Kærar þakkir, Ein stressuð.


Sæl og blessuð!

Gott að þú spyrð að þessu - vona að ég geti róað þig með svarinu ;-)

Það er besta mál að fara á salerni hvenær sem er í fæðingunni og í raun hvetjum við konur til að fara á salerni hvenær sem þörf krefur (undantekningin á þessu er auðvitað þegar mjög stutt er í fæðingu því þá er nú betra að vera ekki á salerninu). Oft verður náttúruleg úthreinsun í byrjun fæðingar eða fyrir fæðingu sem minnkar þá líkurnar á að konan losi hægðir þegar barnið fæðist en það er þó allur gangur á því. Það er líka hægt að biðja um að fá hægðalosandi (t.d. Klyx) ef langt er frá síðustu hægðalosun eða ef þér finnst þú þurfa að losna við hægðir. Þegar barnið er að fæðast þarf það á öllu því plássi sem mögulegt er og því er algjörlega eðlilegt að ef hægðir eru til staðar neðarlega í endaþarminum að þær þrýstist út um leið og kollurinn er við það að fæðast. Okkur ljósmæðrunum finnst þetta ekkert mál - þetta er bara hluti af fæðingunni og merki um að fæðing verði mjög bráðlega.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
5. júní 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.