Spurt og svarað

03. október 2005

Sigurkufl; að fæðast í sigurkufli

Sælar og takk fyrir góðan vef.

Ég eignaðist dóttur nú í vor sem fæddist í belgnum. Þær sögðu mér á spítalanum að þetta kallaðist að fæðast "í sigurkufli" og væri ekki algengt. Þetta er mitt fyrsta barn, þegar hríðarnar byrjuðu var ég alltaf að bíða eftir að vatnið færi og ætlaði þá að hafa samband við fæðingardeildina. En það fór auðvitað aldrei - en það var möguleiki sem ég hafði aldrei heyrt um né lesið. Hversu algengt - eða sjaldgæft - er þetta?
Kveðja, Steinunn.

.......................................................................................................

Sæl Steinunn og þakkir fyrir hólið ;>
Það að fæðast í sigurkufli er alls ekki algengt, sérstaklega ekki nú á dögum þegar oftar er farið að grípa inní fæðingar með belgjarofi til að hefja sótt eða örva hana. Þetta gerist þó af og til en því miður hef ég engar tíðnitölur yfir þetta.  Sjálf hef ég tekið á móti 2 börnum á þennan hátt eftir rúmlega 2 ára starfsreynslu.

Í bókinni Íslenskir þjóðhættir eftir Jónas Jónasson 3. útg. Rvk: 1961 stendur: "Lán eitt hið mesta er það að fæðast í sigurkufli" (bls.39). "Sigurkufl er líknarbelgurinn utan um barnið kallaður, ef hann er heill og órifinn, og verður sá sem fæðist í honum fyrirtaks lánsmaður. Sigurkuflinn átti að hirða og sá sem í honum fæddist átti að geyma hann alla ævi, enda var hann til margra hluta kröftugur, sögðu sumir að ef menn beri hann á sér verði þeir skyggnir og enginn galdur vinni á þeim og hafi þeir sigur í hverju máli (bls. 260-261)."

Kær kveðja
Guðrún Sigríður Ólafsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
3. október 2005

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.