Sitjandi fæðingar

23.01.2007

Sælar!

Hvað getið þið sagt mér um sitjandi fæðingar?

Kveðja, Janúarbumba.

 


 

Sæl og blessuð! Takk fyrir að senda okkur fyrirspurn.

Ef barn er í sitjandi stöðu við 37 vikna meðgöngu er yfirleitt reynd svokölluð vending sem gengur út að það að snúa barninu í höfuðstöðu. Vending er talin örugg fyrir móður og barn.Ef ekki er hægt að reyna vendingu eða ef vending tekst ekki þá þarf að velta fyrir sér hvort heppilegra sé að reyna fæðingu um fæðingarveg eða taka barnið með keisaraskurði.

Undanfarin ár hefur konum meira og minna verið ráðlagt að fara í keisara þegar um sitjandi stöðu er að ræða. Þessar ráðleggingar byggðu á niðurstöðum alþjóðlegrar rannsóknar sem birtist árið 2000. Síðan þá hafa æ fleiri gagnrýnt þessa rannsókn og nú er svo komið að niðurstöður hennar þykja ekki eins sterkar og þær þóttu þegar þær voru birtar. Einnig hafa verið teknar saman tölur um útkomu sitjandi fæðinga á LSH á tímabilinu 1991-2000 og þær niðurstöður gefa til kynna góða útkomu sitjandi fæðinga.

Í stuttu máli sagt þá getur sitjandi fæðing verið góður kostur séu góð skilyrði fyrir hendi en í öðrum tilfellum er keisaraskurður ákjósanlegri kostur. Það sem skiptir máli í þessu sambandi er stærð barnsins, stærð grindar samkvæmt grindarmælingu sem gerð er með röntgenmynd. Staða barnsins skiptir einnig máli og best er ef barnið er í beinni sitjandi stöðu (fætur beinir) eða fullkominni (fætur bognir) sitjandi stöðu og höfuð þarf að vera vel beygt en alls ekki reigt. Þetta er hægt að meta í sónar. Það hefur einnig mikið að segja að fæðingin fari sjálfkrafa af stað og góður framgangur sé í fæðingunni. Þættir eins og vaxtarskerðing barns í móðurkviði og legvatnsmagn geta einnig haft áhrif. Það má ekki gleyma því að keisaraskurður er stór aðgerð og ekki án fylgikvilla fyrir móður. Aðgerðin skilur eftir sig ör á leginu sem jafnvel getur stofnað meðgöngum framtíðarinnar í hættu, þar sem aukin hætta er á fyrirsætri fylgju, fastri fylgju og legrofi.

Samkvæmt upplýsingum frá fæðingarskráningu, fæddust 5 fullburða einburar í sitjandi stöðu á Íslandi árið 2005.

Kona sem er með barn í sitjandi stöðu ætti að fá nákvæmt mat á þeim þáttum sem skipta máli í þessu sambandi og góða ráðgjöf frá sínum lækni og ljósmóður til að geta tekið upplýsta ákvörðum um fæðingarmáta.

Vona að þetta spurningunni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
23. janúar 2007.