Skoðun fylgju

05.04.2007

Takk fyrir frábæran vef;)

Ég vil byrja á því að taka það fram að ég er frumbyrja, reyki ekki hvorki né drekk en er svaðalegur sælkeri sem jókst til muna á meðgöngunni. Ég hef heyrt að fylgjan sé skoðuð um leið og hún kemur út og nú var ég bara að velta fyrir mér hvað væri skoðað? Sést á fylgjunni öll þau sætindi sem ég hef innbyrgt? Sést jafnframt á fylgjunni hjá óhófsfólki að það hafi reykt og jafnvel drukkið?

Kveðja, Maíbumba:)


Sæl og blessuð!

Fylgjan er alltaf skoðuð eftir fæðingu, sérstaklega m.t.t. þess hvort hún hefur komið öll því það er ekki gott ef hluti hennar verður eftir því það getur skapað blæðingarhættu fyrir konuna. Það er einnig metið hvort fylgja, belgir og naflastrengur séu eðlileg að öðru leyti. Það er ekki beinlínis hægt að sjá á fylgjunni ef móðir hefur reykt á meðgöngu en reykingar geta verið orsök þess að fylgjan er rýr. Það er enginn leið að sjá hvort móðir hafi borðað mikil sætindi á meðgöngu.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
5. apríl 2007.