Spurt og svarað

30. janúar 2007

Skyndifæðingar

Þessi síða hefur verið mér mikil fróðeiksnáma og ómetanleg hjálp í gegnum meðgöngu og á fyrstu vikum frumburðarins.

Þar sem ég fór nýlega í gegn um eðlilega fæðingu án deyfilyfja get ég ekki annað en velt fyrir mér þessum "fréttafæðingum" þar sem konur eru að fæða heima eða í bíl á leið á fæðingardeildina og nú síðast konan sem átti við
eldhúsvaskinn þar sem enginn vissi að hún ætti von á barni.

Þetta eru kannski sérstæð tilvik en ég er einstaklega forvitin að vita hvað veldur þessum skyndifæðingum og hvernig þær ganga yfirleitt fyrir sig.

Mín reynsla var sú að ég þurfti að rembast töluvert mikið (og meðvitað gegn rifnunartilfinningunni) til að koma frá mér barninu.  Kemur barnið bara án þess að maður rembist í svona skyndifæðingu?  Eða rembist maður bara án þess að þurfa að reyna þegar maður fær svona sterka sótt?

Hvernig veit maður að nú er barnið bara að koma?

Helga

 


 

Komdu sæl og takk fyrir skemmtilega fyrirspurn.

Eins og þú segir þá eru þessar fæðingar algjörar undantekningar en þess eðlis að maður heyrir um þær í blöðum eða fréttum. Það er erfitt að segja eitthvað um það af hverju konur fæða svona skyndilega og jafnmargar ástæður fyrir því og konurnar eru margar.  Þetta er svo kannski ekki alveg skyndifæðing hjá öllum þessum konum heldur hafa sumar haft verki heima en eru alltaf að bíða eftir að þeir verði sterkari og verri til að ákveða að nú sé kominn tími til að fara á fæðingadeildina, svo kemur barnið á leiðinni þangað. 

Konur eru mjög misfljótar að fæða og ganga mislétt í gegnum þetta ferli.  Þessar konur sem eiga svona skyndilega hafa sennilega flestar átt börn áður og þær fæðingar gegnið hratt og vel fyrir sig en þó ekki svona.  Konur upplifa líka útvíkkunartímabilið eða hríðarnar misjafnlega, og fæðingin gengur mishratt.  Konur þurfa oftast minna að rembast í annarri og þriðju fæðingu heldur en þeirri fyrstu og það tímabil er styttra.  Ef barnið er vel skorðað og höfuðið er langt gegnið ofan í grindina þegar fæðing byrjar er hún líka oftast styttri.  Aðrir þættir sem hafa áhrif eru líkami konunnar, stærð grindarinnar, stærð barnsins, hugarástand konunnar og svo mætti lengi telja.

Rauði þráðurinn í þessu öllu er að konur upplifa fæðingu mjög misjafnlega og gengur misvel að fæða.  Þessar fæðingar sem virðast gerast svona skyndilega ganga yfirleitt mjög vel og eru alveg eðlilegar. 

Vona að þetta svali að einhverju leiti forvitninni

Bestu kveðjur

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
30.01.2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.