Spurt og svarað

09. ágúst 2012

Spangardeyfing

Þegar ég var að fæða dóttir mína þá bað ég um spangardeyfingu en mér var ítrekað neitað um hana þótt ég var farin að öskra á ljósmóðurina um spangardeyfingu, mér var alltaf bara sagt nei. Þetta meira að segja situr svolítið í mér að það var ekkert hlustað á mig. Einnig bað ég um að fyllt yrði á mænudeyfinguna því ég var farin að finna til en var neitað um það líka. Núna er ég ólétt aftur og ég hugsa ekki um annað en fæðinguna.. og ég er harðákveðin í því að vilja spangardeyfingu en er svo hrædd um að mér verði neitað um allt, ég veit um konur sem hafa beðið í spangardeyfingu í fæðingu og fengið hana og ekkert mál svo mér finnst mjög fúlt að mér var neitað mörgum sinnum, hver er ástæðan fyrir því? hitti ég bara á slæma ljósmóður? Ljósmóðirin fór bara að röfla um sínar skoðanir á deyfingum, er þetta ekki val konunnar? hvaða deyfingar konan vill fá? mér finnst glatað að ljósmæður skuli geta neitað manni um deyfingar bara af því að þær eru ekki á þeirri skoðun að það eigi að nota svona deyfingar í fæðingu.Sæl!
Mér þykir leitt að heyra um upplifun þína og vona að þú fáir betri upplifun af næstu fæðingu.
Það sem ég var að velta fyrir mér er hversvegna þér fannst svona mikilvægt að fá spangardeyfingu. Venjulega er spöngin ekki deyfð nema þegar þarf að klippa í spöngina, leggja sogklukku og þegar þarf að sauma eftir fæðingu. Ef spöngin er deyfð með því að sprauta deyfilyfi í hana með nál án þess að ástæða sé til, eins og t.d. þegar þarf að klippa, er verið að auka hættu á bjúgmyndun og óþarfa þani á spönginni og þar með auka hættu á rifum. Ef þú ert að tala um spangardeyfingu með spreyi er skýringin þess að þér var neitað um hana einföld, það virkar ekki að spreyija því á heila húð, aðeins á rofna húð.
Varðandi mænurótardeyfinguna er erfitt að segja til um hversvegna þér var neitað um ábót. Það er ekki geðþótta ákvörðun ljósmóður hvort fylla skuli á deyfingu eða ekki. Og ekki ákvörðun ljósmóðurinnar hvaða deyfingu konan fær eða fær ekki. Stundum missa konur alveg rembingstilfinningu þegar þær eru með mænurótardeyfingu og ég velti fyrir mér hvort það hafi gerst í þínu tilfelli og ljósmóðirin talið betra að sleppa því að gefa þér ábót svo þú gætir betur rembst, en það eru bara getgátur hjá mér.
Ef til vill væri gott fyrir þig að fá afrit af fæðingarskýrslunni þinni og fara yfir fæðinguna með ljósmóður í mæðraverndinni eða fá viðtal í ljáðu mér eyra á Landspítalanum.

                                                                          Með kærri kveðju,
                                                                     Signý Dóra Harðardóttir,
                                                                ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
                                                                           9. ágúst 2012

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.