Stór börn og gangsetningar

20.04.2007

Sæl.
Ég bý i Danmörku og geng með 3 barnið mitt, bæði börnin mín eru fædd í Danmörku, en við flytjum til Íslands áður en þetta barn fæðist.

Við fæðingu dóttur minnar (fyrsta fæðingin) lenti hún í axlarklemmu og
laghálsinn hjá mér rifnaði, svo það blæddi mikið og ég var send í aðgerð
til að sauma fyrir æðina sem blæddi frá. Dóttir mín var 4455gr, og hún
þurfti að fara til sjúkraþjálfara í nokkra mánuði:o(

Þegar ég gekk með soninn var fylgst vel með hve stór hann var að verða og fæðingin var framkölluð þegar ég var komin 38 vikur á leið, því sónar
sýndi að hann var líka að verða stór. Fæðingin gekk vel og hann var rétt
tæp 4 kg.  Nú hef ég lesið hér á heimasíðunni að fæðingu á ekki að framkalla þegar ástæðan er að barnið er að verða stórt. Gildir það líka þegar ég er búin að "sanna" að það er ekki pláss fyrir svona stórt barn í fæðingu hjá mér?

Ég vona virkilega að það verði tekið tillit til þess að ég er ekki hönnuð
til að fæða stór börn, og að fæðingarlæknirinn hér i Danmörku hefur metið að það sé einnig rétt að ég verði sett af stað í þetta sinn ef barnið verður stórt.

Kær kveðja Maríanna

 Komdu sæl Maríanna


 

Ég skil það vel að þú hafir áhyggjur af þessu miðað við fyrri sögu og full ástæða fyrir þig að ræða þetta við fæðingalækni þegar þú kemur til Íslands.  Ástæðan fyrir því að ekki þykir ráðlegt að gangsetja þegar grunur er um stórt barn er að slíkar fæðingar ganga oft betur ef konan fer sjálf af stað.  Þetta er þó metið í hverju tilviki fyrir sig og því enginn spurning að þú þarft að tala um þetta við fæðingalækni.

Gangi þér vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
20. apríl 2007.