Spurt og svarað

26. september 2006

Streptókokkasýking og bað

Við 27 vikur og 2 daga var ég lögð inn vegna mikilla samdrátta og styttingar leghálsins. Þá fékk ég sterameðferð og var á sýklalyfjum. Úr ræktun hjá mér kom í ljós að ég var með streptókokkasýkingu í leghálsinum. Eftir að meðferðinni var lokið fékk ég að fara heim með þeim tilmælum að taka því mjög rólega fram á 34. viku og einnig að ég mætti bara fara í sturtu en ekki bað vegna sýkingarhættu. Ég er hins vegar mjög mikið fyrir langar stundir í baði og finnst það rosalega erfitt að vera bundin niður heima og geta ekki einu sinni notið þess að fara í bað. Eru engin ráð til að reyna að koma í veg fyrir sýkingu þó maður fari í bað, gæti ég t.d. ekki notað álfabikarinn minn þegar ég fer í bað til að koma í veg fyrir að vatn flæði upp í leggöngin? Eða er það of mikil erting fyrir mig að neðan, þannig að ég gæti komið fæðingu af stað þannig þar sem ég má t.d. ekki hafa samfarir? Þá langar mig að vita hvort allar vonir séu nú úti hjá mér um vatnsfæðingu út af þessari sýkingu minni.  Ég var búin að ákveða að fara til Keflavíkur og eiga í vatni þar, er ennþá möguleiki á því ef ég geng fram yfir 37 vikur. Ég mun alltaf fá sýklalyf við fæðingu þar sem ég er GBS beri.

Með þökk fyrir góða síðu og von um fljót og góð svör:)


Sælar og takk fyrir að leita til okkar
 
Þar sem ég er að vinna á fæðingardeild HSS í Keflavík þá get ég sagt þér að konur sem greinast með streptókokkasýkingu af tegund B (GBS) á meðgöngu mega fæða í vatninu, en eins og þú sagðir þá fá þær konur sýklalyf í æð í fæðingunni.  20% kvenna eru GBS-berar á meðgöngu sem þýðir að þær eru með streptókokka í leghálsinum sem þær finna í flestum tilfellum ekkert fyrir en geta valdið vandræðum fyrir barnið eftir fæðingu. Hér í Keflavík erum við með skimun við 37. vikna meðgöngu og höfum því greint allar konur sem eru með GBS á meðgöngu. Þær fá sýklalyf í inntöku í tæpa viku og svo eins og áður er sagt sýklalyf í æð í fæðingunni.  Við höfum ekki verið að ráða konum frá því að fara í sitt eigin bað heima hjá sér.

Gangi þér sem allra best og vertu velkomin til okkar í baðið í Keflavík.

Kveðja,

Steina Þórey Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. september 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.