Súrefni í stað glaðlofts?

31.03.2010

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

Ég er byrjuð að undirbúa fæðingu barns nr. 2 og mig langar að forvitnast hvort hægt sé að biðja um súrefni í stað glaðlofts í fæðingu? Þegar ég var að eiga mitt fyrsta barn, þá var sóttin mjög hörð strax frá upphafi og ég átti í miklum erfiðleikum með að anda mig í gegnum hríðarnar. Mín viðbrögð voru að halda í mér andanum og streitast á móti. Ljósmóðirin bauð mér þá glaðloft. Það sló ekki á verkina en það hjálpaði töluvert til að ná stjórn á önduninni, sem gerði hríðina bærilegri. Því miður gat ég ekki notað glaðloftið lengi þar sem mér varð svo óglatt af því og byrjaði að kasta upp. Ég hafði ekki rænu á því þá að spyrja hvort hægt væri að fá súrefni í staðinn og mér var heldur ekki boðið upp á það.

Kær kveðja, Anna.


Sæl Anna!

Ef þú telur að gríman hafi hjálpað þér við að ná tökum á önduninni þá er sjálfsagt að nota hana. Það er hægt að gefa súrefni í hana eða bara ekki neitt, þ.e.a.s. þú andar bara andrúmslofti í gegn um grímuna. Það er sjálfsagt fyrir þig að biðja um þetta í fæðingunni.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
31. mars 2010.