Systkini viðstödd fæðingu á LSH

02.05.2007

Sælar verið þið.

Takk fyrir öll fróðlegu svörin sem er hægt að lesa hérna. 

Gætuð þið sagt mér hvort eldri systkini séu velkomin á fæðingardeild Landspítalans eða í Hreiðrið til að vera viðstödd fæðingu?  Ég er að sjálfsögðu að tala um börn sem er búið að undirbúa vel og hafa a.m.k. einn fullorðinn með til að sinna sér að öllu leiti.  Ég veit að í heimafæðingu er þetta vel mögulegt, en leikur forvitni á að heyra hvernig starfsfólk Landspítalans bregst við því að hafa lítil börn viðstödd.

Bestu kveðjur, G.

 


 

Komdu sæl!

Það er afar sjaldgæft að systkini séu viðstödd fæðingar á Landspítalanum og gildir það öðru máli, hvort börn eru viðstödd fæðingu á sínum heimavelli eins og við heimafæðingar eða inni á stofnun í framandi umhverfi þrátt fyrir að hafa umönnunaraðila með sér og vera vel undirbúin. Ég átta mig ekki alveg á, hvaða aldur þú ert að tala um því annars vegar talar þú um eldri systkini og hins vegar lítil börn.
Það hafa einstaka sinnum borist beiðnir um þetta til Landspítalans og hafa þær verið samþykktar í undantekningartilfellum að uppfylltum þessum skilyrðum:

  • Fyrirspurn eða beiðni þarf að hafa borist um þetta því starfsfólk þarf að vita af þessu fyrirfram.
  • Það þarf að vera ákveðinn aðili með barninu, sem sinnir því allan tímann og það þarf að vera vel undirbúið, en allt þetta ferli er algjörlega á ábyrgð hlutaðeigandi aðila.

Samkvæmt yfirljósmóður fæðingardeildar voru þau börn, sem hafa verið viðstödd fæðingu á fæðingardeild Landspítalans um 10-11 ára aldur. Samkvæmt deildarstjóra í Hreiðrinu þyrftu þau að vera um fermingu til að fá leyfi til að vera viðstödd fæðingu þar. Enda þótt fæðing barns sé oftast eðlilegt, yndislegt og jákvætt ferli geta komið upp þær aðstæður að grípa þurfi inn í fæðinguna t.d. með sogklukku eða töng eða ljúka fæðingunni með keisaraskurði. Oft á tíðum reynist það jafnvel fullorðnum einstaklingum erfitt að upplifa slíkar aðstæður, sem ekki má gleymast, þegar verið er að undirbúa og skipuleggja hverjir ættu að vera viðstaddir fæðinguna.

Það eru skiptar skoðanir á þessu, bæði meðal fagfólks og annarra. Þegar um heimafæðingu er að ræða er eldra systkini á sínum heimavelli og getur ráðið að hve miklu leyti það tekur þátt í þessum atburði. Þegar um fæðingu á sjúkrahúsi er að ræða þá eru aðstæður ókunnar og þrátt fyrir að barnið hafi með sér aðila sem sér alfarið um að sinna barninu þá er ekki víst að barnið finni til öryggis við þessar aðstæður.

Gangi ykkur vel.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
2. maí 2007.