Tættir belgir

05.05.2007

Ég eignaðist stelpu í fyrra og þá kom í ljós eftir fæðinguna að belgirnir á fylgjunni væru mikið tættir. Ég fékk enga útskýringu og hef hugsað mikið um það síðan. Er það hættulegt fyrir barnið?


Sæl og blessuð!

Það er erfitt að svara því hvers vegna belgirnir tætast. Þegar legvatnið fer er það vegna þess að gat kemur á belginn og síðan geta belgirnir tæst eftir það. Ég veit ekki til þess að tættir belgir hafi áhrif á heilsu barnsins. Ef belgir eru tættir er erfiðara að átta sig á því hvort þeir hafi allir skilað sér og það getur þýtt að belgjatæjur geta verið eftir í leginu en þær skila sér þá yfirleitt fljótlega. Það getur þýtt það að legið dragi sig ekki eins vel saman og að meira blæði frá leginu.

Vona að þetta svari spurningunni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
5. maí 2007.