Tengsl á milli fyrirburafæðinga

28.04.2008

Sæl!

Sjálf fæddist ég fyrirburi og var að spá hvort að það myndi auka líkurnar á því að ég myndi eiga fyrirbura sjálf?


Sæl og takk fyrir að leita til okkar.
 
Það geta verið margar ástæður fyrir fyrirburafæðingum, t.d. sýking í leggöngum, legvatn fer of snemma, leghálsbilun, fyrirburafæðing af óþekktum toga svo eitthvað sé nefnt.  Ekkert af þessum ástæðum erfist á milli kvenna og því er engin fylgni milli þess að fæðast sem fyrirburi og að eiga síðar barn sem fætt er fyrir tímann.  Ef þú hefur fæðst fyrir tímann vegna einhverra þessara ástæðna eykur það ekki líkurnar að þú eignist sjálf fyrirbura.  Hins vegar ef þú hefur fæðst fyrir tímann vegna meðgöngueitrunar hjá móður þinni þá eru auknar líkur á að þú fáir meðgöngueitrun og getur það leitt til þess að þú þurfir að fæða fyrir tímann.
 
Ég vona að þetta svari spurningu þinni.

Kær kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
28. apríl 2008.