Spurt og svarað

24. júlí 2005

Tímalengd fæðinga

Hæ!

Mig vantar að fá svör í sambandi við lengd fæðingar. Málið er að ég á 3 börn og ég hef alltaf talið að frá þeim tíma sem maður byrjar að fá verki þangað til að barnið er fætt að það sé lengd fæðingarinnar. Það tók 9 tíma með fyrsta barn, 11 tíma með annað barn og 28 tíma með þriðja barn. Þá er ég að tala um þann tíma frá því að verkir byrjuðu. Á fæðingarskýrslunum stendur (reyndar ekkert með fyrsta barn) að fæðing annars barns frá 1. stigi til 3. stigs hafi aðeins tekið 45 mínútur og þriðja barn hafi aðeins tekið 4 tíma og 2 mínútur.

....................................................................

Sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Þegar tímalengd fæðingar er reiknuð ætti að telja frá þeim tíma þegar fæðingahríðar hefjast þ.e. hríðar með reglulegu millibili og þar til fylgjan er fædd. Fyrsta stig fæðingarinnar sem oft er kallað útvíkkunartímabil hefst þegar reglulegar fæðingahríðar hefjast og lýkur þegar útvíkkun er lokið. Annað stig sem einnig kallast rembingstímabil hefst þegar útvíkkun er lokið og lýkur við fæðingu barnsins. Þriðja stigið hefst við fæðingu barnsins og lýkur við fæðingu fylgjunnar. Á skýrslunni ætti einnig að standa klukkan hvað verkir byrjuðu og það er líklega sá tími sem hefur verið lagður til grundvallar útreikningum ljósmóðurinnar sem hefur skrifað í mæðraskrána.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. júlí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.