Tímalengd fæðinga

24.07.2005

Hæ!

Mig vantar að fá svör í sambandi við lengd fæðingar. Málið er að ég á 3 börn og ég hef alltaf talið að frá þeim tíma sem maður byrjar að fá verki þangað til að barnið er fætt að það sé lengd fæðingarinnar. Það tók 9 tíma með fyrsta barn, 11 tíma með annað barn og 28 tíma með þriðja barn. Þá er ég að tala um þann tíma frá því að verkir byrjuðu. Á fæðingarskýrslunum stendur (reyndar ekkert með fyrsta barn) að fæðing annars barns frá 1. stigi til 3. stigs hafi aðeins tekið 45 mínútur og þriðja barn hafi aðeins tekið 4 tíma og 2 mínútur.

....................................................................

Sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Þegar tímalengd fæðingar er reiknuð ætti að telja frá þeim tíma þegar fæðingahríðar hefjast þ.e. hríðar með reglulegu millibili og þar til fylgjan er fædd. Fyrsta stig fæðingarinnar sem oft er kallað útvíkkunartímabil hefst þegar reglulegar fæðingahríðar hefjast og lýkur þegar útvíkkun er lokið. Annað stig sem einnig kallast rembingstímabil hefst þegar útvíkkun er lokið og lýkur við fæðingu barnsins. Þriðja stigið hefst við fæðingu barnsins og lýkur við fæðingu fylgjunnar. Á skýrslunni ætti einnig að standa klukkan hvað verkir byrjuðu og það er líklega sá tími sem hefur verið lagður til grundvallar útreikningum ljósmóðurinnar sem hefur skrifað í mæðraskrána.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. júlí 2005.